Túnis með vegabréf á lofti í Feneyjum

15.05.2017 - 16:05
Það er margt merkilegt við vegabréf og vegabréfsáritanir og það er það sem skáli Túnis fjallar um á Feneyjatvíæringnum, í endurkomu sinni eftir 50 ára fjarveru.

Túnis sendi ekki einn listamann heldur er verkið samvinnuverkefni margra einstaklinga með ýmiss konar bakgrunn – undir stjórn sýningarstjórans Linu Lazaar. Skáli Túnis er á þremur stöðum, meðal annars gamalli landamæraeftirlitsstöð.

Nú er Feneyjatvíæringurinn í fullum gangi og Víðsjá ætlar að skoða skála nokkurra landa á næstu dögum. Fyrst í röðinni er Túnis. 

Fjarvera slóða

Túnis er nyrsta landið í Afríku. Það var frönsk nýlenda fram til ársins 1956. Nafnið Túnis er talið koma úr máli Berba og merkja tjaldbúðir – áningarstaður á ferðalagi.

Túnis tekur þátt í Feneyjartvíæringnum í fyrsta sinn í hálfa öld, en landið tók síðast þátt árið 1958. Verkefnið er samvinnuverkefni ýmissa textahöfunda og svo þátttökuverk sem sýningarstjórinn, Lina Lazaar, sér um. Á opnunarhátíðinni voru framdir gjörningar, dansatriði og ljóðaupplestur, en fyrir utan það taka engir eiginlegir listamenn þátt á staðnum.

Verkið kallast The absence of paths eða Fjarvera slóða.

Mynd með færslu
 Mynd: LUKE.A.WALKER
Gestir geta fengið svokallað freesa – óháða vegabréfsáritun. [The Absence of Paths, the Tunisian Pavilion is at La Biennale di Venezia from 13 May to 26 November 2017,theabsenceofpaths.com]

Ólíkt öðrum löndum sem taka þátt í er Túnis-skálinn ekki á einum stað, heldur þremur. Eiginlega mætti frekar kalla þetta skýli – eða söluturna – og tveir þeirra eru staðsettir utan hins eiginlega svæðis sem merkt er tvíæringnum. Söluturnarnir eru mannaðir fólki sem hefur reynslu af því að vera hælisleitendur – eða eru það enn – og þar gefst gestum kostur á að fá útgefið svokallað Freesa – Free Visa – ókeypis vegabréfsáritun. Á umsóknareyðublaði er gestum gert að skrifa nafn sitt, tölvupóstfang og svo er reitur þar sem þeim er gert að taka fram hvaða stað þeir tilheyra. „Where do you belong?“ er spurt. Neðst er svo mynd og þar er umsækjandinn beðinn um að gera hring utan um heima. Myndin sýnir öll lönd jarðar, nema ekki í núverandi mynd, heldur er þetta Pangea, ástand heimsins áður en jarðflekarnir fóru að renna í sundur fyrir 175 milljónum ára.

Tvíæringurinn rammaður inn sem lítil útgáfa af heiminum

Pangea heillaði sýningarstjórann, Lazaar, og hún setur þessa hugmynd í samhengi við tvíæringinn sjálfan. Fjarvera slóða rammar Feneyjartvíæringinn inn sem litla útgáfu af heiminum öllum. Þjóðarskálarnir standa þá hver fyrir sitt land og fjölþjóðlegir gestir ganga óhindrað á milli þeirra.

Mynd með færslu
 Mynd: Luke Walker
Lina Lazaar, sýningarstjóri skála Túnis á Feneyjartvíæringnum 2017. [The Absence of Paths, the Tunisian Pavilion is at La Biennale di Venezia from 13 May to 26 November 2017,theabsenceofpaths.com]

Það má vera að vegabréfið sem gestum áskotnast í söluturnum Túnis-skálans í Feneyjum sé ekki alvöruvegabréf, en þau eru reyndar búin til af opinberum aðilum, sem sjá um raunverulegar vegabréfsáritanir, nefnilega þýska fyrirtækinu Veridos GmbH, sem að eigin sögn framleiðir 65% persónuskilríkja heimsins. Það væri því kannski ekki úr vegi að framvísa freesa-skilríki sínu við næstu landamæri, en upplýsingar á freesa-vegabréfinu sem gestir fá svo í hendurnar eru:

Uppruni: óþekktur,
Áfangastaður: ókunnur,
Ástand: Flakkari - eða farfugl.
(Origin: Unknown. / Destination: Unknown. / Status: Migrant.)

Svo er það stimplað: ONLY HUMAN. Bara mannleg/ur.

Mynd með færslu
 Mynd: .  -  Absence of Paths
Freesa-vegabréfið er framleitt af fyrirtækinu Veridos, sem sér um framleiðslu raunverulegra persónuskilríkja. [The Absence of Paths, the Tunisian Pavilion is at La Biennale di Venezia from 13 May to 26 November 2017,theabsenceofpaths.com]

Við erum jú öll bara mannleg, við tilheyrum öll þessu sama mannkyni, en eigum því miður misverðmæt vegabréf. Til dæmis opna bæði sænska og þýska vegabréfið landamæri að 174 löndum, en vegabréf afganskra ríkisborgara gerir þeim aðeins kleift að ferðast til 24 landa, án þess að fá sérstaka áritun. Íslenska vegabréfið er í níunda sæti á heimsvísu eftir fjölda landa sem ferðast má til án vegabréfsáritunar, en það eru 165 lönd.

En vissuð þið að Elísabet Englandsdrottning er eina manneskjan í heiminum sem þarf ekki á vegabréfi að halda – og á þess vegna ekkert slíkt?

Og fyrir þá sem ekki eiga heimangengt – kannski ekki með nógu sterkt vegabréf – er hægt að skoða hluta verksins á netinu hér.

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi