Tunglferja á Húsavík

19.07.2017 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: Tim White  -  Airberlin Magazine
Örlygur Hnefill Örlygsson er stofnandi Könnunarsögusafnsins á Húsavík. Hluti safnsins er tileinkaður geimferðum en árin 1965 og 1967 héldu Bandaríkjamenn úti þjálfunarbúðum fyrir geimfara á norðurlandi. Bandaríski geimfarinn Charlie Duke heimsótti Könnunarsögusafnið í lok júní sl. og markaði heimsóknin upphafið af stækkun geimferðahluta safnsins. Stendur meðal annars til að gera eftirlíkingu af tunglferju í fullri stærð.

Var meginástæða veru bandarísku geimfaranna hér á landi að á Íslandi finnast sértækar bergtegundir sem mikilvægt er fyrir geimfara að þekkja og geta greint, enda er vísinda- og jarðfræðiþekking mjög mikilvæg í geimferðum. Neil Armstrong var meðal þeirra geimfara sem sóttu þjálfunarbúðirnar. „Ég áttaði mig ekki á því hvað Ísland lék stórt hlutverk í þessu öllusaman,“ segir Örlygur Hnefill. „Þessir geimfarar voru allir toppflugmenn úr Bandaríska hernum, en það að vera toppflugmaður hefur lítið að segja á tunglinu, þeir þurfa að vera vísindamenn líka, og jarðfræðingar. Þessa þjálfun fengu þeir hér hjá okkur.“  Á safninu eru sýndir munir sem tengjast könnunarleiðöngrum víkinga og pólfara, auk muna sem tengjast hellakönnun. „En á allan hátt er þetta merkilegasti könnunarleiðangurinn, að fara með lifandi mannverur á annan hnött,“ segir Örlygur Hnefill.

Geimfarar í bakgarðinum

Upphafið að safninu var árið 2009 þegar hann var staddur í bókabúð. „Ég var staddur á Akureyri, fer inn í Pennann á horninu, og opna þar bók eftir Sigurð Boga Sævarsson blaðamann sem heitir Fólk og fréttir. Og þar sem ég opna bókina sé ég að þar er fyrirsögn sem segir frá æfingum Appollo geimfaranna á Íslandi. Og ég hafði ekki heyrt um þetta áður, þetta er í rauninni bara í bakgarðinum hjá okkur hérna á norðurlandi. Og fannst þetta í fyrsta lagi mjög merkilegt að vita að þeir hefðu verið að æfa hérna, en kannski ekki síður að átta mig á því hversu lítið þessi saga hafði verið sögð.“

Mynd með færslu
 Mynd: Könnunarsögusafnið  -  Flickr
Bandarískir geimfarar stunduðu þjálfun á Norðurlandi á 7. áratugnum.

Ljósmyndasýning sem vatt upp á sig

Í kjölfarið hóf hann að safna saman ýmsu sem tengdist dvöl bandarísku geimfaranna, ásamt öðru sem tengdist geimferðalögum almennt. Notaði hann ýmsar leiðir, komst í samband við fólk á norðurlandi sem hafði ferðast með geimförunum, m.a. Sverri Pálsson ljósmyndara og fyrrv. blaðamann sem átti myndarlegt safn ljósmynda úr ferðum geimfaranna, og gaf þær safninu. Í upphafi var safnið ljósmyndasýning en vatt svo upp á sig. Örlygur Hnefill drýgði safnið á ýmsan hátt, bætti við söguna könnunarleiðöngrum víkinga, pólfara og jöklafara, verslaði að auki á netinu og í fornmunaverslunum. Niðurstaðan úr þeirri söfnun varð Könnunarsögusafnið á Húsavík.

Synir Neil Armstrong á Íslandi

Í framhaldinu setti Örlygur Hnefill sig í samband við nokkra þeirra geimfara sem voru hér á sjöunda áratugnum, og komu nokkrir úr þeim hópi að heimsækja safnið árið 2015, ásamt fjölskyldum sínum. Vígði hópurinn m.a. sérlegt minnismerki um veru geimfaranna á Íslandi, á Húsavík, og heimsóttu þau að auki staðina þar sem þjálfun geimfaranna fór fram forðum, auk þess sem skipulögð var heimsókn á Bessastaði þar sem Hr. Ólafur Ragnar Grímsson þáverandi forseti tók á móti þeim.

Mynd með færslu
 Mynd: Könnunarsögusafnið  -  Flickr
Geimfararnir ásamt fjölskyldum sínum á Bessastöðum 2015

Örlygur Hnefill telur að það hafi verið gestunum dýrmæt reynsla. „Ég held að þetta hafi snert þau djúpt. Og þessir geimfarar munu ekki fara aftur til tunglsins en þetta er líklega það sem kemst næst því. Þetta var líka dýrmætt fyrir fjölskyldurnar að upplifa þetta, og fá tilfinningu fyrir því hvernig þetta var.“

Hann segir að einnig hafi tveir synir Neil Armstrong komið hingað ásamt börnum sínum. „Ég held að þetta hafi verið mjög sérstök upplifun fyrir þau,“ segir hann.

Söfnun fyrir stækkun þegar hafin

Bandaríski geimfarinn Charlie Duke heimsótti Könnunarsögusafnið í lok júní sl. og markaði heimsóknin upphafið af stækkun geimferðahluta safnsins, en til stendur að byggja eftirlíkingu af tunglferju í fullri stærð, líka þeirri sem finna má í Alþjóðlega geimferðasögusafninu (Smithsonian National Air and Space Museum) í Washington D.C. í Bandaríkjunum.

Í myndskeiðinu hér að neðan má kynna sér verkefnið enn frekar.

Þá er hafin söfnun til styrktar stækkuninni, ýmis fyrirtæki og stofnanir hafa ljáð verkefninu styrk en að auki hefur verið sett á fót hópfjármögnun fyrir verkefnið. Fyrirhuguð verklok stækkunarinnar eru árið 2019.