Tugir skólabarna létust í rútuslysi

08.05.2017 - 05:36
Mynd með færslu
Rútan var á leið frá Arusha til Karuta þegar slysið varð.  Mynd: NN  -  U.S. Navy
Yfir 30 manns, mestmegnis skólabörn, létust í rútuslysi í Norðaustur-Tansaníu á laugardag, að sögn þarlendra yfirvalda. Nokkur fjöldi til viðbótar slasaðist þegar rútan fór út af veginum og niður snarbratta hlíð ofan í gljúfur. Verið var að flytja grunnskólanema frá bænum Arusha yfir í annan skóla, þar sem þau áttu að taka æfingapróf að morgni laugardags. Þau voru öll á aldrinum 12 - 14 ára. Tveir kennarar og ökumaður rútunnar létust einnig í slysinu.

Charles Mkumbo, lögreglustjóri í lögsagnarumdæminu þar sem slysið varð, segir rútuna hafa verið á leið niður bratta brekku á regnvotum vegi, þegar hún fór út af veginum og ofan í gilið. Rannsókn standi enn yfir á því, hvort rekja megi slysið til bilunar í rútunni eða mistaka ökumanns. John Magufuli, forseti Tansaníu, sagði slysið þjóðarharmleik og vottaði fjölskyldum hinna látnu samúð sína. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV