Tugir flóttamanna tóku land á sólarströnd

10.08.2017 - 13:57
epa04325247 People enjoy the sun and sea on a crowded beach in Nice, southern France, 21 July 2014. Temperatures reached up to 28 degrees Celcius.  EPA/SEBASTIEN NOGIER
 Mynd: EPA
Bátur með um þrjátíu flóttamenn kom að landi á þéttsetinni spænskri sólarströnd í Cadiz á Suður-Spáni í gær. Nokkur fjöldi var á ströndinni þegar báturinn kom að landi og virtist nokkuð brugðið þegar hópurinn hraðaði sér af ströndinni. Rúmlega sextán hundruð manns hefur verið bjargað undan ströndum Cadiz frá því í janúar, samkvæmt tölum frá Rauða krossinum. Langflestir þeirra eru frá ríkjum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar.

Ströndin er í Cadiz-héraði skammt frá Gíbraltarsundi en þar freista fjölmargir flóttamenn þess að komast yfir til Evrópu í leit að betra lífi. Ströndin nefnist Playa de los alemanes, Þýska ströndin, sem er nokkrum mílum frá ströndum Marokkó. Mikil öryggisgæsla hefur verið á sundinu síðustu mánuði en tilraunum til að komast yfir hefur fjölgað mjög upp á síðkastið. 

Báturinn kom að landi síðdegis í gær en skömmu áður höfðu bæði spænska og marokkóska strandgæslan bjargað fólki af vanbúnum bátum. Samkvæmt tölum frá Frontex, landsmærastofnunar Evrópu, fóru 7.500 manns þessa leið á fyrstu þremur mánuðum ársins, samanborið við 3.500 á sama tíma í fyrra. Talsmaður Frontex segir við blaðamann Guardian að flóttamannabúðum í Marokkó og Alsír hafi verið lokað nýlega og það gæti hafa neytt fleiri til að leggja í þessa hættuför.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Flóttamenn hafa í auknum mæli freistað þess að komast milli Afríku og Evrópu frá hafnarborginni Tangier og að suðvesturströnd Spánar.
Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV