Tryggvi samdi við Spánarmeistarana

19.06.2017 - 10:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfubolta, hefur skrifað undir samning við Spánarmeistara Valencia. Hann fer til Spánar eftir Evrópumótið í haust og leikur með b-liði Valencia til að byrja með.

„Ég æfi með aðalliðinu en spila leiki með b-liðinu þar til ég verð orðinn nógu góður fyrir spænsku deildina.“ segir Tryggvi í viðtali við Mbl.is. Hann segir að áhugi Spánarmeistaranna sé tilkominn fyrir tilstuðlan Jóns Arnórs Stefánssonar sem lék með Valencia og hafa Spánverjarnir fylgst með Tryggva um hríð.

Tryggvi, sem er 19 ára og 218 cm á hæð, lék með nýliðum Þórs á Akureyri í Dominosdeildinni í vetur. Hann var með 11,0 stig, 7,9 fráköst og 2,7 varin skot að meðaltali í leik. Tryggvi verður í eldlínunni með U20 ára landsliði Íslands á fjögurra þjóða móti sem hefst í Laugardalshöll í dag. Ísland mætir Svíþjóð kl. 20 í kvöld, Ísrael á morgun og Finnlandi á miðvikudag.

 

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður