Trump skipar rannsóknarnefnd um kosningasvindl

12.05.2017 - 01:14
Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritar forsetatilskipun, 24. janúar.
Donald Trump Bandaríkjaforseti.  Mynd: EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ritaði í dag undir tilskipun þess efnis að farið verði í saumana á meintu kosningasvindli í forsetakosningunum í fyrra. Auk þess verða hindranir í bandaríska kosningakerfinu kannaðar. 

Nefndin verður leidd af varaforsetanum Mike Pence og Kris Kobach, yfirmanni innanríkismála Kansasríkis. ABC fréttastöðin hefur eftir Sarah Huckabee Sanders, aðstoðarfjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins, að hlutverk nefndarinnar sé að endurheimta traust bandarísks almennings á kosningakerfinu. Forsetanum verður loks fengin skýrsla yfir veikleika á kerfinu sem leiða til rangra skráninga. Búist er við því að nefndin skili af sér skýrslu á næsta ári.

Trump hlaut yfir þremur milljónum færri atkvæði en Hillary Clinton á landsvísu í forsetakosningunum í fyrra. Hann hefur kennt kosningasvindli um það og telur milljónir ólöglegra atkvæða bera sökina á því.

Trump hefur hvað eftir annað ítrekað að hann ætli að færa sönnur fyrir þessum fullyrðingum sínum og er nefndin sett á laggirnar til þess.

Kobach er þekktur og umdeildur vegna herferðar sinnar gegn kosningasvindli í heimaríki sínu Kansas. Hann tilkynnti í síðasta mánuði að í fyrsta sinn hafi erlendur einstaklingur verið fundinn sekur fyrir að kjósa ólöglega í Kansas.

Trump undirritaði einnig tilskipun um að bæta netöryggi bandarískra stjórnvalda. Öryggismál verða nútímavædd að sögn Wall Street Journal og eru tekin skref í áttina að aukinni sameiningu í upplýsingatæknimálum ríkisstofnana.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV