Trump: „Mega vera mjög, mjög hræddir“

10.08.2017 - 19:14
epa06093636 US President Donald J. Trump delivers remarks during a showcase of products made in the United States, in the East Room of the White House in Washington, DC, USA, 17 July 2017. US President Donald J. Trump participated at the White House in a
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.  Mynd: EPA
„Norður-Kóreumenn mega vera mjög, mjög hræddir,“ sagði Donald Trump, Bandaríkjaforseti, við fréttamenn í kvöld. Hann hefði viljað vera enn harðari í horn að taka í samskiptum sínum við Norður-Kóreu, en hann hefur þegar sagst ætla að mæta þeim með „eldi og brennisteini“ vegna kjarnorkuáætlunar landsins. Trump finnist sú viðvörun jafnvel ekki hafa verið nógu sterk.

Tími sé til kominn að einhver taki upp hanskann fyrir heimsbyggðina. „Þeir hafa lengi gert þetta við landið okkar, í mörg ár,“ er haft eftir Trump í frétt AFP. „Það er tími til kominn að einhver taki upp hanskann fyrir fólkið í þessu landi og öðrum löndum. Þannig að sú yfirlýsing var ekki nógu sterk ef eitthvað er.“ Þá sagði hann einnig að Norður-Kóreumenn yrðu í vanda ólíkt því sem nokkurt ríki hefur mátt þola ef þeir tækju sig ekki taki, er haft eftir honum í frétt BBC. Hann segir líka að Kína gæti látið mun meira að sér kveða í Kóreudeilunni. 

Stjórnvöld í Norður-Kóreu segja að áætlun um að skjóta eldflaugum að Kyrrahafseyjunni Guam verði tilbúin eftir nokkra daga. Einn helsti ráðgjafi Trumps segir að þeir sem storka Bandaríkjunum gjaldi það dýru verði. Bandarísk yfirvöld á Kyrrahafseyjunni Guam segjast viðbúin að mæta því ef stjórnvöld í Norður-Kóreu gera alvöru úr hótun sinni í gærkvöld um flugskeytaárás á Guam. Bandaríkjaher er með herstöðvar á eynni.

Harðorð yfirlýsing stjórnvalda í Norður-Kóreu, þar sem þau hótuðu árás á Guam, á sér nokkurn fyrirvara. Leyniskýrslu um að einræðisstjórnin hefði þróað kjarnaodda sem koma mætti fyrir í langdrægum eldflaugum var lekið til bandarískra fjölmiðla. Trump sagðist ætla að svara með eldi og brennisteini og Jim Mattis varnarmálaráðherra tók undir með forsetanum og sagði að ef gerð yrði árás, þýddi það endalok einræðisstjórnarinnar og norðurkóresku þjóðarinnar.