Trump íhugar hernaðaríhlutun í Venesúela

12.08.2017 - 00:38
epa06135361 People participate in a demonstration in Caracas, Venezuela, 10 August 2017. The opposition mayor David Smolansky, a local authority in Caracas's El Hatillo municipality, on 10 August called residents to protest after the Supreme Court
 Mynd: EPA  -  EFE
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist íhuga hernaðaríhlutun í Venesúela, til að bregðast við stöðunni þar, sem hann kallar „mjög hættulega ringulreið.“ Þetta kom fram á fundi forsetans með fréttamönnum í New Jersey á föstudag. „Við höfum margar leiðir varðandi Venesúela, þar á meðal mögulega hernaðaríhlutun, ef nauðsyn krefur,“ sagði Trump. „Við erum með herafla út um allan heim, á mjög fjarlægum stöðum. Venesúela er ekki langt í burtu og fólkið þar þjáist og það er að deyja.“

Trump sagði ástandið í Venesúela hafa verið á meðal þess sem rætt var á fundi hans með Rex Tillerson, utanríkisráðherra, og Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, á fundi fyrr um daginn. „Í Venesúela ríkir algjör ringulreið. Það er mjög hættuleg ringulreið og ástandið afar dapurlegt,“ sagði forsetinn. 

Fyrr í vikunni samþykkti Bandaríkjastjórn viðskiptaþvinganir gegn fulltrúum á nýkjörnu og umdeildu stjórnlagaþingi Maduro-stjórnarinnar, sem virðist í raun hafa sett löggjafarþing landsins af, ef ekki í orði, þá á borði. Áður voru samþykktar refsiaðgerðir gegn Maduro sjálfum, sem kveða meðal annars á um að frysta allar hugsanlegar eignir hans í Bandaríkjunum og leggja blátt bann við því að bandarískir aðilar eigi við hann nokkur viðskipti.