Trump hrósar björgunarstarfi í Houston

27.08.2017 - 16:13
epa06158925 US President Donald J. Trump returns to the The White House after a trip with stops in Arizona and Nevada; in Washington, DC, USA, 23 August 2017.  EPA-EFE/CHRIS KLEPONIS
 Mynd: EPA
Donald Trump forseti Bandaríkjanna, hrósar björgunarsveitum í Texas fyrir viðbrögð við storminum Harvey sem nú fer yfir ríkið. Hann hyggst ekki fara á vettvang fyrr en óveðrið er gengið yfir.

Að minnsta kosti fimm manns eru látnir og á annan tug eru slasaðir vegna óveðursins og flóðanna sem fylgt hafa fellibylnum Harvey, sem náði landi í Texas í fyrrinótt. Í Houston, stærstu borg Texas, hafa björgunarsveitir staðið í ströngu undanfarinn sólarhring og aðstoðað yfir eitt þúsund manns. Greg Abbott ríkisstjóri Texas, segir að björgunarsveitir gangi í öll hús í þeim hverfum sem verst hafa orðið fyrir barðinu á veðrinu. Hann telur að viðvörun sem gefin var út áður en óveðrið skall á kunni að hafa bjargað fjölda mannslífa. Óhemju mikil úrkoma er enn í suðurhluta Texas og skemmdir eru víða á íbúðarhúsum og öðrum mannvirkjum. Varað er við skyndiflóðum næstu daga. 

Trump Bandaríkjaforseti er yfir helgina í forsetabústaðnum í Camp David. Hann tjáði sig um óveðrið á Twitter í dag og segist ætla til Texas um leið og hægt verði að fara þangað án þess að valda truflun. Leggja verði megináherslu á mannslíf og öryggi.