Trump: Hagvöxtur styður við umhverfisvernd

23.04.2017 - 18:45
epa05921802 People gather for a March for Science in New York, New York, USA, 22 April 2017. The march is one of dozens around the United States. Hundreds of thousands of people in more than 400 locations across the globe are also taking part in the March
 Mynd: EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti stuðningi við vísindi í yfirlýsingu sem hann sendi í tilefni dags jarðar sem var í gær. Á Twitter lagði hann áherslu á að verja störf, og sagði að hagvöxtur styddi við umhverfisvernd.

Hundruð þúsunda manna gengu í tilefni dags jarðar til stuðnings vísindum um allan heim, þar á meðal í Reykjavík. Áhyggjur af síauknum árásum stjórnmálamanna á staðreyndir og rök voru tilefni göngunnar, svo og ótti um að vísindarannsóknum verði vikið til hliðar í stefnu stjórnvalda.

Donald Trump hefur verið gagnrýndur fyrir að taka ekki mark á staðreyndum, sér í lagi þegar kemur að vísindum. Hann hefur hunsað samdóma álit helstu vísindamanna um að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu eitt mesta áhyggjuefni samtímans, og hefur lagt til að framlög til Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna, EPA, verði skorin niður um næstum þriðjung.

Í yfirlýsingu í gær, í tilefni af degi jarðar, segir Trump að hárnákvæm vísindi séu afar mikilvæg ríkisstjórn hans sem vilji ná markmiðum bæði um hagvöxt og umhverfisvernd. Á Twitter lagði hann áherslu á efnahaginn, og sagði að þótt honum væri mjög umhugað um að halda lofti og vatni ómenguðu ætti fólk alltaf að muna að hagvöxtur styddi við umhverfisvernd. Störf skiptu máli.

Í aðalgöngunni í Washington í gær stigu 55 ræðumenn á svið. Transmaðurinn Kellan Baker, frá lýðheilsudeild Johns Hopkins-háskóla, sagði að vísindi væru óhlutdræg, en ekki hlutlaus. Hann benti á að skáldið Dante hefði sagt að heitustu hlutar heljar væru fráteknir fyrir þá sem bæru fyrir sig hlutleysi þegar siðferði væri ógnað.

Georges Benjamin, framkvæmdastjóri Bandarísku lýðheilsusamtakanna, sagði að tryggja þyrfti að drifkraftur pólitískrar stefnumótunar væri gögn og sannanir, en ekki einsleit hugmyndafræði. Mexíkósk-bandaríski frumulíffræðingurinn Lydia Villa-Komaroff sagði í sinni ræðu að styðja ætti við rannsóknir þótt þær virtust ekki hafa beina þýðingu fyrir fólk. Hún var meðal vísindamanna sem sýndu fram á það á áttunda áratugunum hvernig bakteríur gætu framleitt insúlín. Það ruddi brautina fyrir þá sprautumeðferð sem fólk með sykursýki reiðir sig nú á.

Bandaríski stjarneðlisfræðingurinn Neil deGrasse Tyson er einn af þeim sem hafa varið málstað vísindanna. Hann segir á Facebook-síðu sinni að vísindi séu algjörlega ópólitískt fyrirbæri. Á síðustu öld hafi Bandaríkjaforsetar sýnt framsýni og stutt vísindi hvar sem þeir stóðu í stjórnmálum.

Árið 1916 hafi Woodrow Wilson, sem var demókrati, sett á stofn Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna. Þetta hafi verið hugmynd sem repúblikaninn Theodore Roosevelt hafi barist fyrir.

Repúblikaninn Herbert Hoover hafi svo árið 1930 stofnað Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna, og demókratinn Harry S. Truman hafi komið Vísindastofnun Bandaríkjanna á fót 1950. Árið 1958 hafi Dwight D. Eisenhower, sem var repúblikani, stofnað Bandarísku geimferðastofnunina, NASA. Fjórum árum síðar hafi svo demókratinn John F. Kennedy lýst því yfir að Bandaríkjamenn ætluðu til tunglsins.

Repúblikaninn Richard Nixon hafi síðan árið 1970 sett á stofn Umhverfisverndarstofnunina, EPA, og síðar sama ár stofnað Haf- og lofthjúpsrannsóknarstofnunina, NOAA. Um miðjan tíunda áratuginn hafi svo demókratinn Bill Clinton veitt auknu fé í rannsóknir og þróun sem hafi gert það að verkum að internetið gat vaxið mjög hratt.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV