Tónlistin er lífið, og lífið er enginn bransi

Iggy Pop
 · 
Kvikmyndagagnrýni
 · 
Lestin
 · 
Menningarefni

Tónlistin er lífið, og lífið er enginn bransi

Iggy Pop
 · 
Kvikmyndagagnrýni
 · 
Lestin
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
19.12.2016 - 09:42.Eiríkur Guðmundsson.Lestin
Tónlistarmaðurinn Iggy Pop er goðsögn í lifanda lífi. Ásamt hljómsveit sinni Stooges ruddi hann brautina á fyrri hluta áttunda áratugarins fyrir pönkbylgjuna sem skall á hinum vestræna heimi fáeinum árum síðar. Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Jim Jarmusch hefur gert heimildamyndina Gimme Danger sem byggir að mestu á viðtölum við Pop. Myndin er nú sýnd í Bíó Paradís en Gunnar Theodór Eggertsson fjallaði um hana í Lestinni.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Arfleifð

Heimildamyndin Gimme Danger segir frá mótunarárum sveitarinnar, sögu hennar á meðan hún starfaði og skoðar þá arfleifð sem Stooges skildu eftir sig, allt fram til endurfunda sveitarinnar á 21. öldinni, en þeir komu meðal annars til Íslands árið 2006 og Iggy Pop var hér síðast í fyrra að dilla sér ber að ofan á sviðinu, tæplega sjötugur. Myndinni er leikstýrt af Jim Jarmusch sem hefur haft ýmis tengsl við tónlistarheiminn í myndum sínum í gegnum tíðina og m.a. gert tónleikamynd um Neil Young. Hann er akkúrat rétti leikstjórinn til að gera sögu Stooges skil í kvikmyndaformi, því hann hefur greinilega ástríðu fyrir efninu og ekki spillir fyrir að Jarmusch og Iggy eru góðkunningjar, en myndin byggir nær alfarið á yfirheyrslum á söngvaranum.

Sagnaglaður seiðkarl

Eins og heyrðist í þessu broti skiptir öllu máli hvað Iggy Pop er skemmtilegur viðmælandi, því nærvera hans límir myndina saman. Hann er leiðsögumaðurinn okkar í gegnum merkilega baksögu hljómsveitarinnar og veitir okkur í leiðinni innsýn í hugarheim listamannsins sem varð fljótt þekktur fyrir ögrandi og furðulega sviðsframkomu. Iggy er eins og seiðkarl á sviðinu og persóna hans er stór hluti af tónlist sveitarinnar – í raun svo ómissandi að hann ku hafa þurft að dansa um í hljóðverinu á meðan hljóðfæraleikurinn var tekinn upp, því annars náðu félagar hans aldrei rétta grúvinu.

Mótunarsaga

Eitt af því sem kemur á óvart í heimildamyndinni er þróunin á bak við bandið og baksaga Iggys sem listamanns. Tónlist Stooges kann að virka eins og óskipulagt pönk, enda voru tónleikarnir þeirra oft algjör óreiða og brjálæði, en stíllinn er alls ekki handahófskenndur, því ákveðin mótun liggur að baki spilamennskunni og músíkinni. Sem hljómsveit undir lok sjöunda áratugarins voru þeir í samræðum við tónlistarsenuna og samtímamenninguna, Iggy sjálfur hlustaði á alls kyns músík og sótti innblástur til poppmenningarinnar, sjónvarpsins, annarra rokkbanda, djasstónlistar og svo framvegis. Fyrst og fremst mætti kannski lýsa afstöðu þeirra sem níhíliskri menningarsköpun og andófi gegn markaðssetningu listarinnar, tilraun til að skapa eitthvað hrátt og díónýsískt á sviðinu, nokkuð sem átti eftir að enduróma í gegnum pönksenuna nokkrum árum síðar. Það mætti jafnvel tala um ákveðna hugmyndafræði að baki stílnum þeirra, nokkurs konar skipulag í kringum alla óreiðuna – þótt óreiðan og óreglan sé vissulega líka til staðar og hafi m.a. dregið einn hljómsveitarmeðlim til dauða vegna ofneyslu.

Frægð ekki í réttu hlutfalli við áhrif

Að miklu leyti er Gimme Danger nokkuð hefðbundin rokktónlistarmynd, byrjar á versta tíma hjá þeim árið 1973, þegar bandið er á hraðri niðurleið, og stekkur svo aftur til æsku Iggy Pop og fylgir tímalínunni þaðan allt fram til ársins 2015. Ég þekki lítið til Stooges og ýmislegt kom mér því á óvart. Þegar maður lítur aftur til baka yfir tónlistarsöguna hljómar eins og sveitin hafi verið vinsæl og merkileg frá fyrstu tíð, en í myndinni sést greinilega að frægðin var ekki í sömu hlutföllum og áhrifin sem sveitin átti síðar eftir að hafa á pönk-rokkið. Í raun virðast þeir mestmegnis hita upp fyrir önnur bönd og standa í ströngu að halda sér gangandi, af ýmsum ástæðum, ekki síst ögrandi hegðun sem útgáfufyrirtækið virtist einfaldlega ekki kunna að markaðsetja eða kljást við. Að sama skapi virðist ekki mikið magn vera til af tónleikaupptökum frá gullárum sveitarinnar, en Jarmusch finnur ýmsar leiðir til að fylla upp í eyðurnar. Myndin hefur verið gagnrýnd fyrir að vera ekki álíka tilraunaglöð og anarkísk eins og umfjöllunarefnið, en Jarmusch gengur skemmtilega langt þar sem hann getur með að skreyta myndina með innskotum úr poppmenningu, skapa stuttar teiknimyndir og að klippa saman senur á skondinn hátt. Það er mikið af húmor í myndinni og á köflum virkilega gaman að hlusta á Iggy Pop rifja upp farinn veg.

Mikilvæg mynd fyrir allt áhugafólk um sögu rokksins

Eina sem mér þykir umkvörtunarvert er þegar myndin tapar sér af og til í smáatriðunum, einkum tengt upptökuferli á ákveðnum plötum, sem hægir aðeins á myndinni og þær senur hefði frekar mátt spara fyrir aukaefni handa hörðustu aðdáendunum, en það er stóra sagan sem er svo grípandi og skemmtileg. Aðdáendur Stooges munu hiklaust elta myndina uppi, en hún er ekki síður mikilvæg fyrir alla þá sem hafa áhuga á sögu rokksins, því Stooges eiga þar ansi hreint sérstakan sess, og þar að auki má finna góða lífsspeki innan um allan ólifnaðinn. Ætli ég ljúki þessu þá ekki með því að leyfa Iggy Pop, eða Jim Osterberg eins og hann heitir í raun, að eiga lokaorðin og grípa á lofti bút úr þakkarræðu hans þegar Stooges hlutu loksins pláss í frægðarhöll rokksins árið 2010, því þar má finna inntak myndarinnar Gimme Danger í hnotskurn: tónlistin er lífið og lífið er enginn bransi.