Tónleikum aflýst vegna stjórnmálatengsla

17.03.2017 - 05:25
epa00911619 EURO 2008 HOST CITIES FEATURE PACKAGE / INNSBRUCK
Innsbruck.  Mynd: EPA
Stjórnendur Ólympíuhallarinnar í Innsbruck í Austurríki ákváðu í gær að aflýsa tónleikum sem til stóð að halda þar á morgun. Tónlistarmennirnir voru allir tyrkneskir og töldu stjórnendur hallarinnar að viðburðurinn yrði af pólitískum toga. The Local greinir frá þessu.

Í tilkynningu frá stjórnendunum segir að þeir hafi fengið upplýsingar um skiupleggjendur tónleikanna og listamennina Osman Oztunc og Gokhan Tekin. Guenter Platter, héraðsstjóri Týrol-héraðs, segir tónlistarmennina vera tyrkneska þjóðernissinna og vera nána samtökum sem kalla sig „Gráa úlfa." Samtökin eru öfgafullur armur Tyrknesku þjóðernishreyfingarinnar, MHP, sem er sá flokkur sem helst styður við hugmyndir Erdogans Tyrklandsforseta um stjórnarskrárbreytingar.

Kosið verður um stjórnarskrárbreytingarnar í Tyrklandi 16. apríl. Þar er kveðið á um aukið vald forseta og hefur Erdogan reynt að kynna breytinguna fyrir Tyrkjum búsettum utan Tyrklands. Stjórnvöld og yfirvöld hafa gert honum erfitt fyrir. Hann brást reiður við banni Hollendinga og Þjóðverja við útifundum.

Fjórum fundum á vegum stjórnmálamanna úr flokki Erdogans var aflýst af yfirvöldum í Austurríki síðustu helgi. Um 360 þúsund íbúar Austurríkis eru af tyrknesku bergi brotnir, þar af eru um 117 þúsund tyrkneskir ríkisborgarar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV