Tongakóngur rak forsætsráðherrann og þingið

25.08.2017 - 06:37
Mynd með færslu
Paradísareyjan Vava'u á góðviðrisdegi  Mynd: Tau´olunga  -  Wikimedia Commons
Tupou VI., kóngur af Tonga, rauf í morgun þing landsins og leysti forsætisráðherrann frá störfum. Stjórnarráðsskrifstofa krúnunnar gaf út opinbera tilskipun um upplausn þingsins, undirritað af konungnum, þar sem jafnframt er boðað til þingkosninga ekki síðar en 16. nóvember. Í plagginu kemur fram að konungurinn geri þetta að ráði Tu'ivakano, lávarðar og þingforseta, en að öðru leyti er engin skýring gefin á þessari aðgerð, sem á sér engin fordæmi í stuttri lýðræðissögu Tonga.

Forsætisráðherrann, Akilisi Pohiva, er fyrsti almúgamaðurinn til að gegna því embætti. Hann var og er mikill baráttumaður fyrir auknu lýðræði í eyríkinu og var kjörinn á þing 2014. Fyrr á þessu ári stóð hann af sér vantrauststillögu lávarðadeildar þingsins, en meðlimir hennar vildu meina að hann væri ekki hæfur til að stjórna landinu. Tonga er eina konungsríkið á Kyrrahafinu. Samkvæmt frétt AFP af þingrofinu hefur verið unnið að því undanfarin ár að styrkja lýðræðið þar í landi. 26 eiga sæti á þjóðþinginu, þar af eru 17 kosnir af almenningi en níu þingsæti eru frátekin fyrir meðlimi höfðingjastéttarinnar.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV