Tölvuhermir með heimspekilegu ívafi

04.06.2017 - 13:09
Mynd með færslu
 Mynd: David O'Reilly  -  Youtube.com
Everything, eða Allt, er stafrænt konseptverk írska listamannsins David O’Reilly. Hljóðmyndin er að hluta unnin úr fyrirlestrarbrotum enska heimspekingsins Alan Watts heitins, þar sem hann veltir upp stórum spurningum um sjálfið og rammar heildarverkið inn á fallegan og þýðingarmikinn hátt.

Innblástur úr samvinnu með Spike Jonze

Höfundur leiksins er írskur kvikmyndagerðarmaður sem þekktastur er fyrir gerð þrívíddarkvikmynda. Verk hans hafa hlotið fádæma góðar viðtökur meðal gagnrýnenda, en hann hlaut meðal annars Gullbjörninn á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2009 fyrir stuttmyndina sína Please Say Something. Hann hefur komið að stórum verkum á borð við kvikmyndina The Hitchikers’s Guide to the Galazy, og gerði að auki tónlistarmyndband við lag stórsveitarinnar U2, “I’ll Go Crazy If I Don’t Go Crazy Tonight”, árið 2009. Einnig kom hann að hinni margverðlaunuðu Her eftir Spike Jonze frá árinu 2013, en hann sá um gerð tölvuleikjanna sem notaðir voru í myndinni. Varð sú vinna honum innblástur fyrir áframhaldandi störf á sviði tölvuleikjahönnunar.

Nýjar áttir í leikjahönnun

Fyrsti leikur hans, Mountain, kom út árið 2014 og lagði sá leikur línurnar fyrir þá óvenjulegu nálgun sem hann notar á leikjaformið. Mountain er óhefðbundinn leikur að öllu leyti, gagnvirknin er lítil og snýr leikurinn sér helst í átt að upplifunarhönnun á borð við þá sem helst þekkist í sýndarveruleikaþróun.  Er Everything annar tölvuleikurinn sem David O’Reilly sendir frá sér, en þar má finna meira af því sama, þar sem formið hefur verið tekið lengra svo að úr verður stafrænt konseptverk með hermiviðmóti.

Allt frá bakteríum til sólkerfa

Í Everything getur notandinn líkamnast í öllum verum innan söguheimsins, allt frá bakteríum til sólkerfa. Endurspeglar leikurinn þá miklu og fjölbreyttu grósku sem hefur verið í leikjahönnun síðustu ár, þar sem formið hefur verið teygt lengra inn á hin ýmsu svið menningar og lista, hönnunar og fræða.
Enski heimspekingurinn Alan Watts lést árið 1973 og var þekktastur fyrir túlkanir sínar á austrænni heimspeki. Brot úr Everything má sjá í meðfylgjandi stiklu.

Leikurinn er aðgengilegur fyrir Playstation 4, á Mac, Microsoft Windows og Linux. Áhugasamir geta keypt leikinn á vefsíðu Everything.