Tollverðir gagnrýna BSRB fyrir stefnuleysi

20.03.2017 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Aðalfundur Tollvarðafélags Íslands gagnrýnir BSRB harðlega fyrir stefnuleysi og linkind í kjaraviðræðum undanfarin ár. Í ályktun er BSRB sérstaklega gagnrýnt fyrir framgöngu sína í breytingum á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna í vetur.

Þá lýsa félagar jafnframt vantrausti á stjórn BSRB og Elínu Björgu Jónsdóttur, formann sérstaklega. Aðalfundurinn segir að skoða verði sérstaklega hvort hagsmunum félagsmanna sé betur borgið utan bandalagsins, enda sé erfitt að sjá hvað hafi áunnist með aðild að bandalaginu undanfarinn áratug.  

Ársæll Ársælsson, formaður Tollvarðafélags Íslands, segir að stjórn félagsins fari nú alvarlega yfir ályktunina. Aðspurður um það hvort félagið ætli sér að segja sig úr BSRB segir hann að til þess þurfi atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna; slík atkvæðagreiðsla standi ekki til að sinni. Tollvarðafélag Íslands sé eitt af stofnfélögum BSRB og því yrði úrsögn stór og mikil ákvörðun. 

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir þetta ekki ný sjónarmið sem þarna komi fram. „Sambærilegar skoðanir voru reifaðar þegar formannaráð BSRB ákvað að gera samkomulag við ríki og sveitarfélög um lífeyrismál opinberra starfsmanna síðastliðið haust. 22 aðildarfélög samþykktu að gerast aðilar að samkomulagi við ríki og sveitarfélög um lífeyrismál en fjögur voru því mótfallin, þar á meðal Tollvarðafélagið. Þessi óánægja er af þeim meiði.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV