Tókust á um kröfur sjómanna

05.01.2017 - 20:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Varaformaður Sjómannasambands Íslands hafnar því með öllu að sjómenn séu ekki reiðubúnir til að taka á sig kjaraskerðingu vegna styrkingar krónunnar. Það sé hluti af sjómannsstarfinu og hafi verið veruleiki þeirra í áratugi. Framkvæmdastjóri SFS segir hins vegar að þetta sé eitt þeirra atriða sem þurfi að ræða í kjarasamningagerðinni, sjómenn þurfi að taka á sig gengisskerðingu eins og útgerðin.

Þau Konráð Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands og Heiðrún Lind Marteinsdóttir voru gestir Kastljóss. Konráð sagði meðal annars að eftir að sjómenn hefðu felt fyrri kjarasamning hefði sambandið fundað úti um allt land og í kjölfarið sett fram frekari kröfur. Þær snérust meðal annars um kostnaðarskiptingu, fæðis- og fatakostnað, sjómannaafslátt og svo fjarskiptamál. 

Heiðrún sagði meðal annars að deiluaðilar þyrftu að stíga skref til baka því hún hefði það á tilfinningunni að of djúpar skotgrafir hefðu verið grafnar. Hún líkti þessu við matarboð þar sem boðið væri upp á stappaða ýsu.

Ef matargestum líkar ekki við ýsuna þýðir ekki að stappa meira smjöri út í hana, þetta er samt sama ýsan.

Konráð tók líkinguna áfram og sagði að sjómönnum þætti smjör gott.

Mynd með færslu
Baldvin Þór Bergsson
dagskrárgerðarmaður
Kastljós