Tókst ekki að stilla til friðar á Breiðdalsvík

05.09.2017 - 12:43
Nærmynd af merki lögreglunnar með einkennisorðunum "Með lögum skal land byggja".
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Yfirlögregluþjón á Austurlandi segir að barnaverndaryfirvöld hafi frá upphafi verið upplýst um ósætti milli 13 ára drengs á Breiðdalsvík og manns á fimmtugsaldri í bænum sem urðu til þess að maðurinn var úrskurðaður í tveggja mánaða nálgunarbann. Lögreglan hafi mikið unnið í málinu en tilraunir til að koma á sáttum hafi ekki borið árangur.

Foreldrar drengsins höfðu ítrekað kvartað til lögreglu vegna ógnandi tilburða mannsins. Lögreglustjóri samþykkti nálgunarbannið í síðustu viku og í ákvörðun hans er lýst 11 atvikum frá árinu 2015 fram til 12. ágúst síðastliðins. Samkvæmt heimildum fréttastofu má rekja upphaf málsins til skemmdarverks sem drengurinn vann. Maðurinn hefur kallað á eftir drengnum, hjólað í veg fyrir hann og sýnt honum ógnandi tilburði. 

Fram kemur í úrskurði dómara sem staðfesti nálgunarbannið að rannsókn málsins virðist á frumstigi og ekki hafi enn verið teknar skýrslur af vitnum.

Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir að mikilvægt sé að reyna að koma á sáttum í litlu samfélagi eins og Breiðdalsvík. Það hafi lögreglan reynt frá upphafi án árangurs. Barnaverndaryfirvöld hafi strax verið upplýst um málið, skýrslur teknar af manninum og konu hans og reynt að koma á nauðsynlegu sambandi milli þeirra og forráðamanna drengsins. Átökin hafi legið niðri um tíma en blossað upp aftur í sumar. Var svo komið að drengurinn þorði ekki að mæta í skólann af ótta við manninn. Beiðni um nálgunarbann kom frá lögmanni forráðamanna drengsins. Lögreglan samþykkti beiðnina enda talið fullreynt að ná sáttum. Dómari hefur staðfest nálgunarbannið með úrskurði. 

Maðurinn, sem sjálfur á börn, hefur haldið því fram að drengurinn hafi beitt þau ofbeldi. Í nálgunarbannsúrskurðinum segir að þótt ekki verði dregið í efa að manninum hafi gengið það eitt til að vernda fjölskyldu sína og eignir þá leysi það hann ekki undan þeirri skyldu að sýna aðgætni í samskiptum við börn. Samkvæmt barnaverndarlögum liggja sektir eða fangelsi allt að þremur árum við því að hóta eða ógna börnum. 

Maðurinn má ekki koma nær drengnum eða heimili hans en 10 metra. Hann má ekki veita drengnum eftirför eða setja sig í samband við hann með nokkrum hætti. Dómari stytti þann tíma sem nálgunarbannið gildir, það rennur út 1. nóvember en maðurinn hefur sagt að hann muni flytja úr landi þann dag.

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV