Tjaldbúðir auðar og sýni greind í dag

11.08.2017 - 10:24
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV
Samráðsfundur heilbrigðisyfirvalda, almannavarna, skátahreyfingarinnar o.fl. um næstu skref og aðgerðir vegna sýkingarinnar sem kom upp á Úlfljótsvatni í gærkvöld hófst klukkan 10 í Hveragerði.

Nýjum hópum komið fyrir annars staðar

176 breskir og bandarískir skátar voru í gærkvöld og í nótt fluttir i fjöldahjálparmiðstöð í Hveragerði.  Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir að einkenni sýkingarinnar bendi til þess að skátarnir hafi veikst af nóróveiru.  Hann vildi þó ekki fullyrða að svo væri. Starfsfólk heilbrigðiseftirlits  tekur núna sýni á Úlfljótsvatni og verða þau send til Reykjavíkur til greiningar eins fljótt og auðið er.

Sótthreinsað á Úlfljótsvatni

Tjaldbúðirnar á Úlfljótsvatni eru nú auðar. Til stóð að 20 skátar í þremur hópum kæmu til dvalar á Úlfljótsvatni í dag. Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta segir að þeir komi til með að dvelja í Hraunbyrgi í Hafnarfirði. Í tilkynningu frá Bandalagi íslenskra skáta kemur fram að útivistarsvæðið við Úlfljótsvatn verði sótthreinsunað á næstu dögum.

Fréttin hefur verið uppfærð