Tíu nýir starfsmenn til að flýta hælisumsóknum

11.08.2017 - 20:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tíu nýir starfsmenn taka til starfa hjá Útlendingastofnun á næstunni til að hraða meðferð hælisumsókna. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að meirihluti hælisumsókna sé tilhæfulaus og að slíkar umsóknir hafi „kæft kerfið“ bæði hvað varðar mannafla og fé. Hún býst við allt að tvö þúsund umsóknum í ár en tekur fram að erfitt er að spá fyrir um slíkt. Mikið sé til þess vinnandi að koma í veg fyrir tilhæfulausar umsóknir en þegar hafi nokkur árangur náðst við afgreiðslu þeirra.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, kynnti stöðu hælismála nú þegar árið er hálfnað fyrir ríkisstjórninni á fundi hennar í morgun. Útlendingastofnun hefur verið veitt heimild til að ráða tímabundið tíu nýja starfsmenn og býst Sigríður við að þeir taki til starfa á næstunni.

Umsóknum um hæli hér á landi hefur fjölgað töluvert og aukningin var umfram áætlun í júní og júlí. Sömuleiðis er breytt samsetningin á hópnum sem hingað kemur og tekur Sigríður Georgíumenn sem dæmi. „Borgurum þess lands var veitt áritunarfrelsi af Evrópusambandinu fyrr á þessu ári og það hefur leitt til þess að við erum í fyrsta sinn að sjá hælisumsóknir frá Georgíu.“

Vísa fólki úr landi sem fyrst

Sigríður segir að flestar umsóknir um hæli séu tilhæfulausar og mikilvægt að vísa fólki úr landi sem fyrst. „Eftir sem áður er meirihluti þeirra umsókna sem okkur berast um hæli frá fólki frá  svokölluðum öruggum löndum og því skilgreindar sem tilhæfulausar umsóknir. Það er brýnt að hraða enn frekar afgreiðslu þessara mála.“ Enda þótt einhverjar umsóknir um hæli séu frá stríðshrjáðum löndum séu þær flestar frá öruggum löndum og til undantekninga heyrir að þaðan sé fólki veitt hæli, segir Sigríður.

Starfsmönnum verður fjölgað hjá Útlendingastofnun til að sinna umsóknum um hæli með það að markmiði að stytta málsmeðferðartíma og draga úr kostnaði við hælislið fjárlaga, segir Sigríður. Undir hælislið fellur allur kostnaður vegna þjónustu við hælisleitendur. „Sá kostnaður er allt of hár og við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr kostnaði. Það verður ekki gert öðruvísi en að hraða mjög málsmeðferðinni og vísa fólki sem fyrst úr landi. Það eru okkar markmið.“

Hafa kaffært kerfið

Með því að draga úr tilhæfulausum hælisumsóknum gefist betra tækifæri til að sinna vel þeim sem við ákveðum að taka hér á móti. „Það hefur verið þannig að þessar umsóknir sem eru tilhæfulausar hafa algjörlega kaffært kerfið bæði hvað varðar mannafla og fé. Þannig að mikið er til þess vinnandi að koma í veg fyrir tilhæfulausar umsóknir og það gerum við með því að afgreiða þær strax.“

Nokkur árangur hafi þegar náðst. „Við höfum nú þegar náð því að afgreiða umsóknir frá öruggum ríkjum samdægurs og við vonumst til að geta haldið því í horfinu og í framhaldinu vísað fólkinu mjög fljótt úr landi.“

Hefði Útlendingastofnun ekki þurft þennan liðsauka fyrr?

„Ég veit það ekki. Ég er ekki með yfirsýn yfir starfsmannahætti hjá Útlendingastofnun. En það liggur að minnsta kosti fyrir að hún fær hann núna.“

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV