Tillaga Íra rædd á leiðtogafundi

28.04.2017 - 11:51
Erlent · Brexit · Evrópa
epa05879074 Enda Kenny, Taoiseach of Ireland speaks during the EPP Summit, in Saint Julians, Malta, 30 March 2017. The Maltese Nationalist Party (PN) is hosting the center-right pro-European political party European People's Party (EPP) congress and
Enda Kenny, forsætisráðherra Írlands.  Mynd: EPA
Leiðtogar Evrópusambandsins koma saman á morgun til að ræða helstu markmið í viðræðum um úrsögn Breta úr sambandinu. Á fundinum verður rædd umdeild tillaga frá stjórnvöldum á Írlandi. 

Enda Kenny, forsætisráðherra Írlands, tókst að knýja fram umræður á leiðtogafundinum um tillögu sem kveður á um að Norður-Írland fái nær sjálfkrafa aðild að sambandinu sameinist það Írska lýðveldinu.

Tillaga Íra er, að sögn breska blaðsins Guardian, byggð á sömu rökum og við sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands eftir fall Berlínarmúrsins.  

Samkvæmt Guardian er ákvæði um það í friðarsamkomulaginu, sem tók gildi á Norður-Írlandi árið 1999 og kennt er við föstudaginn langa, að Norður-Írland geti sameinast Írlandi sé það vilji meirihluta Norður-Íra.

Það sé hins vegar ekki fyrir hendi, samkvæmt nýlegri könnun. Þar hafi 62 prósent lýst yfir vilja til að tilheyra áfram Bretlandi en einungis 22 prósent stutt sameinað Írland. 

Guardian segir að umræður um málið á leiðtogafundinum á morgun veki líklega hörð viðbrögð í Lundúnum og auki áhyggjur manna um að úrsögnin úr Evrópusambandinu leiði til að Bretland liðist í sundur.

Ekki er búist við löngum leiðtogafundi á morgun. Sagt er að leiðtogarnir leggi blessun sína yfir þær línur sem embættismenn hafa lagt fyrir viðræðurnar við Breta. Formlegar viðræður hefjist ekki fyrr en að loknum kosningum í Bretlandi sem fram fari 8. júní. 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV