Þýskur réttarmeinafræðingur í máli Birnu

Héraðsdómur Reykjavíkur 2. mars 2017
 Mynd: RÚV
Urs Oliver Wiesbrock, þýskur réttarmeinafræðingur, hefur verið dómkvaddur sem matsmaður í máli Birnu Brjánsdóttur. Honum hefur verið falið að svara fimm spurningum sem verjandi Thomasar Möller Olsen óskaði eftir að leggja fyrir hann. Wiesbrock fékk frest til 26. júní til að skila áliti sínu. Þá hefur gæsluvarðhaldið yfir Olsen verið framlengt um fjórar vikur en hann er ákærður fyrir morðið á Birnu. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan um miðjan janúar.

Wiesbrock þekkir vel til íslenskra sakamála en hann var starfandi hér á landi um nokkurt skeið. Hann var meðal annars réttarmeinafræðingur í morðmáli á Egilsstöðum fyrir fjórum árum, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Þar var Friðrik Brynjar Friðriksson dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morðið á Karli Jónssyni. 

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir í samtali við fréttastofu að næsta fyrirtaka í málinu verði í byrjun júní. Þá verði hugsanlega ákveðið hvenær aðalmeðferð í málinu fer fram.

Ragnar Jónsson bæklunarlæknir var í síðustu viku kvaddur til sem hinn matsmaðurinn í málinu. Verjandi Olsens hefur lagt fyrir hann tvær spurningar og fékk Ragnar frest til 16. júní til að skila áliti sínu.  

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að saksóknari myndi óska eftir því að tíu skipverjar af grænlenska togaranum Polar Nanoq kæmu til Íslands til að bera vitni. Í þeim hópi er hinn skipverjinn sem sat tvær vikur í einangrun vegna gruns um að hann tengdist morðinu á Birnu. Hann gaf skýrslu fyrir dómi rétt áður en honum var sleppt úr haldi. Hann hefur ekki stöðu sakbornings og er laus allra mála. 

Kolbrún segir að endanlegur fjöldi vitna úr áhöfninni liggi ekki fyrir en þau verði að minnsta kosti tíu. Hún segir að ekki sé hægt að skikka erlend vitni til að koma til landsins til að gefa skýrslu. „En ég á ekki von á öðru en að menn verði samstarfsfúsir hvað þetta varðar.“

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV