Þurfa að læra að sitja frekar en að taka lyf

07.06.2017 - 09:30
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Þeir sem leita til læknis vegna verkja í baki þurfa sumir hvorki að gleypa lyf né fara í röntgenmyndatöku heldur að læra hvernig eigi að sitja í stól eða jafnvel standa við vinnu. Hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur verið tekið í gagnið nýtt fyrirkomulag þar sem sjúkraþjálfari starfar við hlið lækna en með slíkri samvinnu gæti fólk komist á bataveg jafnvel mörgum vikum fyrr en ella.

Sjúkraþjálfari hluti af greiningarteymi

Stór hluti þeirra sem leitar til heilsugæslunnar glímir við stoðkerfisvanda, til dæmis verki í baki. Pétur Heimisson framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA, segir að þar hafi menn lengi gælt við þá hugmynd að hafa sjúkraþjálfara í greiningarteymi heilsugæslunnar. Einn daginn hafi legið beint við að auglýsa eftir einum slíkum. „Það að það var látið vaða réðist nú kannski af því að það vantaði tilfinnanlega lækna og neyðin kennir naktri konu að spinna. Þá er það þannig að stoðkerfisvandi er svona algengur. Er tilkominn vegna rangrar líkamsbeitingar, rangra vinnustellinga eða afleiðinga af einhverjum gömlum meiðslum. Þar eru sjúkraþjálfarar sérfræðingar þannig að það er einhvern veginn rökrétt að fremur en að fyrsti viðkomustaður slíks sé alltaf læknir að þá sé það kannski sjúkraþjálfari. Ég held til dæmis að röntgenmyndatökur séu í þessum vanda oft ofmetnar,“ segir Pétur.

Lyf ekki alltaf lausn fyrir kroppinn

Kristín Briem prófessor við sjúkraþjálfunarbraut HÍ segir að námið sé að breytast og nú lögð áhersla á samvinnu sjúkraþjálfarans við til dæmis lækna á heilsugæslu. Slíkt geti stytt bið eftir réttri meðferð. „Af því að bara það að taka lyf til þess að minnka verk það er ekki lausn fyrir kroppinn. Þannig að þarna er kannski verið að eyða 3-4 vikum í bið þegar viðkomandi þarf kannski að eflast í því að vita hvað hann getur sjálfur gert hvað hann ætti síður að gera og svo framvegis,“ segir Kristín.

Leiðbeiningar bæði fyrirbyggjandi og læknandi

Þóra Elín Einarsdóttir er nýr heilsugæslusjúkraþjálfari hjá HSA. Hún segir að sjúkraþjálfarar þekki vel og jafnvel betur en læknar hvernig röng líkamsbeiting veldur verkjum. Sem starfsmaður heilsugæslunnar fái hún einnig að sinna forvörnum en hægt sé að spara mörgum þrautir með því að kenna einfalda hluti. „Til dæmis í skólanum. Hvernig er besta að sitja og hvað það er nauðsynlegt að hreyfa sig þegar maður situr lengi.  Það kom til mín ein um daginn og spurði hvernig hún ætti að standa þegar hún léki á þverflautuna sína því þá væri henni alltaf svo illt í hálsinum. Það eru ótæmandi möguleikar,“ segir Þóra Elín. 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV