Þrír látnir vegna Sebastíans í Þýskalandi

14.09.2017 - 05:14
Erlent · Evrópa · Þýskaland · Veður
epa06202357 Beach chairs lay along the flooded beach of Norddeich, northern Germany, 13 September 2017. Storm 'Sebastian' brings heavy wind squalls that causes flooding at the northern coast.  EPA-EFE/DAVID HECKER
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Minnst þrír eru látnir af völdum stormsins Sebastíans sem blæs um Þýskaland með tilheyrandi úrhelli. Hvassast er norðantil á landinu þar sem hviður Sebastíans ná allt að fellibylsstyrk.

Tveir menn létu lífið í Hamborg vegna stormsins. Maður í hjólastól fannst látinn þar sem hann drukknaði í flóði af völdum stormsins. Annar maður lést þegar bútur úr stillansa féll niður nokkrar hæðir á höfuð mannsins. Þriðji maðurinn lést í bænum Brilon í vesturhluta Þýskalands, þar sem stormurinn feykti niður 20 metra háu tré sem féll ofan á manninn.

Stormurinn fór yfir vestur- og norðurhluta landsins í gær og fer í áttina að austurhlutanum að sögn þýskra veðurfræðinga. Að sögn danska ríkisútvarpsins, DR, er víða rafmagnslaust í Þýskalandi vegna Sebastíans. Segir DR enn fremur að Danir hafi sloppið nokkuð vel hingað til vegna stormsins. Brúnni yfir Eyrarsund var þó lokað í nótt vegna hættulegra vindhviða.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV