Þórir og Jóhanna taka þátt í björgunaraðgerðum

04.11.2016 - 10:09
Mynd með færslu
 Mynd: Rauði kross Íslands
Þórir Guðmundsson, deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík og Jóhanna Jónsdóttir,hjúkrunarfræðingur taka á næstu vikum þátt í björgunarverkefnum Alþjóðasambands landsfélag Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Miðjarðarhafi.

Í tilkynningu frá Rauða krossi Íslands kemur fram að eftir að landamærum Grikklands og Makedóníu var lokað fyrr á þessu ári hefur straumur flóttafólks færst til Líbíu þar sem fólk freistar þess að komast yfir til Ítalíu og þaðan til annarra áfangastaða í Evrópu. Þessi sjóleið sé mun hættulegri en þegar fólk reyndi að komast áður til Grikklands. Um 3.800 flóttamenn hafi drukknað á leið sinni frá Líbíu til Ítalíu og sá fjöldi væri enn meiri ef björgunarskipa nyti ekki við. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rauði krossinn

 

Rauði krossinn sjái um heilsugæslu um borð í tveimur björgunarskipum; Phoenix og Responder, sem hafi á þessu ári komið yfir 12 þúsund flóttamönnum til bjargar. Rauði krossinn hefur að auki varið 18,5 milljónum króna til björgunaraðgerða og fyrirhugar frekari fjárstuðning við þetta mikilvæga verkefni, segir í tilkynningunni. 

Þetta verður fyrsta sendiför Jóhönnu fyrir Rauða krossinn en hún starfaði á sínum tíma á tjaldsjúkrahúsi á vegum Íslensku friðargæslunnar í Pristina í Kósóvó í kjölfar stríðsátaka á Balkanskaga árið 2000. Þórir hefur tekið þátt í verkefnum víðsvegar um heil, þar á meðal í gömlu Sovétríkjunum, Asíu, Austur-Evrópu og Afríku. Þórir fer með upplýsingamál fyrir hönd Alþjóðasambandsins í þessum björgunaraðgerðum.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV