Þorgerður Katrín: Tilbúin með mínar tillögur

17.02.2017 - 10:39
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kom á fund atvinnuveganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar í morgun til að ræða sjómannaverkfallið. Hún segir að í gangi séu hugmyndir um hvernig leysa eigi sjómannaverkfallið.

„Við töluðum saman í trúnaði og ég fór yfir málið með þingmönnum. Við erum að tala saman; það eru ákveðnar hugmyndir í gangi sem við erum að kasta á milli okkar, ég og sjómannaforystan, en auðvitað kemur að einhverjum skurðpunkti sem við þurfum að meta hvenær verður.“

Þorgerður Katrín segir að hugmyndirnar hafi meðal annars verið ræddar á fundi með sjómannaforystunni. Hún bíði eftir að heyra frekar frá þeim síðar í dag. „Það liggur ljóst fyrir að deilan er búin að vera í níu vikur og við verðum einfaldlega að skoða hvaða leiðir eru færar. Ég er tilbúin með mínar tillögur þegar ég fæ nánari útlistun á því hvað þeir vilja nákvæmlega. En ég undirstrika það að ég er að leita almennra leiða, ekki endurvekja sjómannaafsláttinn.“

Um gagnrýni Páls Magnússonar, formanns atvinnuveganefndar, í gær sagði Þorgerður Katrín að eðlilegt væri að fólk hefði skoðanir. Spurð nánar út í að Alþingi ætti að grípa inn í ef ríkisstjórnin geri það ekki sagði hún: „Eigum við ekki að segja að yfirlýsingar stjórnmálamanna á þessu stigi hjálpa ekki deilunni.“

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV