Þingmaður smyglaði farsímum inn í fangelsi

19.03.2017 - 18:27
epa05686339 Israeli Arab politician and Israeli 'Knesset'parliament member Basel Ghattas (C) sits in a police vehicle as he leaves the Magistrate Court in Rishon Lezion, Israel, 23 December 2016. Police arrested Basel Ghattas on 22 December
Basel Ghattas hefur setið á ísraelska þinginu frá 2013.  Mynd: EPA
Ísraelskur þingmaður, Basel Ghattas að nafni, sagði af sér þingmennsku í dag. Hann var sviptur þinghelgi þegar grunsemdir vöknuðu um að hann hefði smyglað farsímum til palestínskra fanga í einu helsta öryggisfangelsi Ísraels.

Basel Ghattas er ísraelskur arabi. Hann hefur setið á ísraelska þinginu Knesset frá árinu 2013. Ghattas heimsótti Ketziot öryggisfangelsið í Negev í desember síðastliðnum. Fljótlega eftir heimsóknina fundust tólf farsímar og símkort hjá tveimur palestínskum föngum. Grunur kviknaði um að þingmaðurinn hefði smyglað þeim inn í fangelsið. Þar sem hann var þingmaður var ekki leitað á honum eins og langflestum sem koma í heimsókn.

Basel Ghattas játaði að hafa látið fangana fá farsíma. Hann kvaðst hafa samúð með Palestínumönnum og það hefði ráðið gjörðum hans. Hann átti yfir höfði sér að verða dæmdur í tíu ára fangelsi. Hann náði hins vegar samkomulagi við embætti ríkissaksóknara um að sitja inni í tvö ár gegn því að segja af sér þingmennsku.

Um það bil 17,5 prósent ísraelsku þjóðarinnar eru af arabískum uppruna, afkomendur araba sem héldu landareignum sínum innan ísraelsku landamæranna þegar Ísraelsríki var stofnað árið 1948. Þrátt fyrir að þeir séu ísraelskir ríkisborgarar líta flestir þeirra á sig sem Palestínumenn.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV