„Þetta er árás á Donald Trump“

20.06.2017 - 16:59
Bandaríkin · Leiklist · Lestin · Trump · Menning
Umdeild uppsetning leikhússins Public Theater í New York á leikritinu Julius Caesar eftir William Shakespeare vakti á dögunum mikla umræðu. Mótmælendur í salnum trufluðu sýninguna fyrir að vega að forseta Bandaríkjanna, Donald Trump.

Tímaflakk leikhússins

„Hugmyndin um list sjálfrar sín vegna og um skáldskap sem töfra, sem bara eru til þess fallnir að dáleiða okkur í frístundum, er úrkynjuð hugmynd og staðfestir hæfni okkar í að gelda okkur sjálf,“ segir franski leikarann og leikskáldið Antonin Artaud í bók sinni Leikhúsið og tvívera þess frá árinu 1938.

Artaud gaf lítið fyrir hugmyndina um fortíð leikhússins og sagði klassísk verk vera „bókmenntir, það er að segja negld niður; og negld niður í form, sem svarar ekki lengur þörfum og kalli tímans.“ Fullyrðing Artauds er rétt að því leyti að með tímans rás dofna bein tengsl leikrits við samfélagið en leikhús nútímans sér sig þó knúið til að setja þau reglulega verk upp, viðhalda merkingu þeirra og hefja til vegs og virðingar. En merking gamalla leikrita finnst auðvitað ekki í tómarúmi heldur því samfélagi sem kýs að setja þau upp. Það er pólitísk afstaða hvers leikhús hvaða verk eru valin og hvernig þau eru sett upp.

Leikhúsið sem pólitískur áhrifavaldur

Í gegnum sögu vestrænnar menningar hefur leikhús að jafnaði þjónað hlutverki miðlunar hugmynda eða afstöðu. Ef litið er til leikverka forn Grikkja er ljóst að þau áttu í sterku samtali við líðandi stund, hugmyndafræði, sögu og stjórnmál.

Í frægri bók Aristótelesar Um skáldskaparlistina eru að finna einar elstu hugmyndir sem vitað er um vestrænt leikhús. Aristóteles taldi leikhúsið vera siðferðislegt verkfæri sem gæti haldið uppi borgaralegum aga og knúið fram nýjar hliðar á málefnum sem varða þjóðfélagið í heild. Aristóteles notast við hugtakið kaþarsis til þess að útskýra virkni leikhússins . Í kaþarsis felst hreinsun slæmra gilda og hneigða. 

Caesar sem Trump

Nú fyrir skemmstu komst uppsetning Julius Caesars hjá Public Theater í New York í hámæli fyrir pólitískar skírskotanir enda minnir hún á stjórnmálaumhverfi Bandaríkjanna í dag. Caesar sjálfur er einskonar Trump-fígúra, í hvítri skyrtu og svörtum frakka með sítt, rautt bindi.

Á einni sýningunni í Central Park voru tveir áhorfendanna sem stóðu upp og mótmæltu í miðri sýningu. Kona á vegum hægri öfgahreyfingarinnar Alt-right fór upp á svið og hrópaði: “Hættið að gera pólitískt ofbeldi í garð hægrisins eðlilegt. Þetta er árás á Donald Trump.” Strax í kjölfarið stóð maður upp í miðjum sal og sagði: “Þið eruð öll Goebbles!” Það var sum sé mikill hiti í fólki og í kjölfarið fékk sýningin ef til vill meiri athygli en hún þoldi. Stórfyrirtæki sem veittu leikhúsinu fjárstuðning töldu sig knúin til þess að draga stuðning sinn til baka og atriði sýningarinnar voru rædd hástöfum á samfélagsmiðlum.

Lestin fékk til sín Ásdísi Sigmundsdóttur, doktor í almennri bókmenntafræði, til að útskýra Shakespeare betur fyrir okkur og ræða pólitískt leikhús.

 

Jóhannes Ólafsson
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi