„Þetta er algjör baktería“

13.03.2017 - 11:36
„Þetta er algjör baktería, þegar maður byrjar einu sinni þá er voða erfitt að sleppa.“ Þannig lýsir Anna María Hjálmarsdóttir, formaður Freyvangsleikhússins í Eyjafjarðarsveit, leiklistaráhuganum sem hefur gripið hana eins og svo marga aðra.

Um 30 manns koma að sýningunni sem nú er verið að setja upp í Freyvangi en það er gamanleikurinn Góðverkin kalla. Margir hafa tekið þátt í starfinu árum saman. „Ég er búinn að vera hérna viðloðinn í ein 12 ár. Ætli fólk sé ekki farið að fá leiða á að sjá mig á sviðinu,“ segir Ingólfur Þórsson sem fer með hlutverk í sýningunni. 

Freyvangsleikhúsið er eitt öflugasta áhugaleikhús landsins og hefur starfað nær óslitið frá árinu 1962. „Við þurfum virkilega á svona öflugu áhugastarfi að halda held ég,“ segir Ingólfur. „Þetta gefur mikið og fyrir svona sveitarfélag eins og Eyjafjarðarsveit þá held ég að þetta sé alveg mjög mikið og flott starf sem við erum að vinna hérna og í þakklátu samfélagi.“

Landinn leit inn á æfingu í Freyvangi. Þáttinn í heild er hægt að sjá hér. 

Mynd með færslu
Þórgunnur Oddsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Landinn