Theresa May fordæmir árásina

19.06.2017 - 12:59
epa06017977 British Prime Minister Theresa May delivers a victory speech at the Magnet Leisure Centre after being declared the winner of the vote in the constituency of Maidenhead, England, Britain, 09 June 2017. British voters went to the polls on 08
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.  Mynd: EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segist fordæma árásina sem gerð var á hóp múslima í norðurhluta Lundúna í nótt. Segir hún árásina jafn andstyggilega og fyrri hryðjuverkaárásir í Bretlandi.

Einn lést og tíu slösuðust þegar sendibíl var ekið inn í hóp gangandi vegfarenda fyrir utan mosku í Finsbury Park-hverfinu í norðurhluta Lundúna laust eftir miðnætti. Að sögn lögreglu voru öll fórnarlömb árásarinnar múslimar og svo virðist sem árásinni hafi verið beint gagngert gegn þeim. Ökumaður bílsins, sem talið er að hafi verið einn að verki, var handtekinn og hryðjuverkadeild lögreglunnar rannsakar nú málið. 

Theresa May fundaði í morgun með öryggisnefnd bresku ríkisstjórnarinnar vegna árásarinnar. Að fundinum loknum sendi hún frá sér yfirlýsingu. Hún sagði að enn og aftur væri gerð árás á saklausa borgara, í þetta skiptið breska múslima. „Í dag komum við saman, eins og við höfum gert áður, til að fordæma þessa árás og ítreka enn og aftur að hatur og illska muni aldrei vinna,“ sagði May.

Hún sagði jafnframt að í mörg ár hefði of mikið umburðarlyndi ríkt gagnvart öfgahópum. Árásin væri áminning um að hryðjuverk geti tekið á sig ýmsar myndir og mikilvægt sé að bregðast við þeim af jafn mikill hörku, sama hver eigi í hlut.  

Þetta er fjórða hryðjuverkaárásin í Bretlandi á fjórum mánuðum. May sagði þessa árás á allan hátt jafn andstyggilega og fyrri árásir.