Þekkingarskortur hamli samkeppnishæfi Íslands

17.05.2017 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: Gerður Jónsdóttir  -  RÚV
Þekkingaskortur á náttúruvísindum og rannsóknum hér á landi hamlar alþjóðlegri samkeppnishæfni Íslands á sviði sjálfbærni og nýsköpunar. Þetta segir Vistfræðingafélag Íslands, sem sendi þingmönnum ályktun í dag. Þar eru stjórnvöld hvött til að setja meiri peninga í rannsóknarstörf á náttúru Íslands í gegn um háskólana og að sótt sé að vísindastarfsemi hérlendis með undirfjármögnun háskólanna.

Þvert á stefnu Vísinda- og tækniráðs

Í ályktun félagsins segir að sótt sé að vísindastarfsemi víða um heim með margvíslegum hætti. Hérlendis lýsi það sér meðal annars með undirfjármögnun háskólanna sem komi niður á menntun og rannsóknum á náttúru Íslands. Það gangi þvert á stefnu- og aðgerðaráætlun Vísinda- og tækniráðs 2014 til 2016 sem kvað á um að styrkja eigi fjármögnun háskólakerfisins hér á landi svo hún verði að minnsta kosti sambærileg við meðaltal aðildarríka OECD árið 2016 og Norðurlandanna árið 2020.

Aukin krafa á sjálfbærni og nýsköpun

„Þekking á náttúru landsins er grundvöllur sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda, en þar gegnir vistfræði lykilhlutverki. Hins vegar skortir víða grunnþekkingu á vistkerfum Íslands, bæði hvað varðar starfsemi þeirra og líffræðilega fjölbreytni,” segir í ályktuninni. „Aukin krafa er gerð til sjálfbærni við nýsköpun og því hamlar þekkingarskortur á þessu sviði alþjóðlegri samkeppnishæfi Íslands. Því er brýnt að styrkja þær stofnanir sem sinna vistfræðirannsóknum og efla fjármögnun samkeppnissjóða.”

Vistfræðingafélag Íslands var stofnað árið 2009 með það að markmiði að efla íslenskar vistfræðirannsóknir og vistfræðiþekkingu. Félagið hélt ráðstefnu á Hólum í Hjaltadal nýlega þar sem ályktunin var samþykkt. 

Mynd með færslu
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV