Þekjufrumur Birnu og Olsens á skóreim hennar

Þekjufrumur bæði frá Birnu Brjánsdóttur og Thomasi Møller Olsen fundust á skóreim á skóma sem Birna átti. Skórnir fundust á athafnasvæði Hafnarfjarðarhafnar 14. janúar. Myndabandsupptökur sýna að Kia Rio bifreið sem Møller Olsen var með á leigu, var stödd í námunda við staðinn þar sem skórnir fundust. Þá fannst fingrafar Olsens á ökuskírteini Birnu.

Þetta kemur fram í frétt Vísis sem byggir á gæsluvarðhaldsúrskurðum yfir Thomasi Møller Olsen. Hann hefur verið ákærður fyrir að myrða Birnu.

Í frétt Vísis er greint frá því að blóð úr Birnu hafi fundist á úlpu ákærða. Rannsókn á fatnaði hans hafi sýnt að fötin hafi komist í snertingu við nokkuð mikið magn blóðs. Þá hafi þekjufrumur fundist á skóreim á skóm Birnu. Þekjufrumur mynda meðal húðina.

Fingrafar á ökuskírteini Birnu

Ökuskírteini Birnu fannst i svörum ruslapoka á dekki Polar Nanoq, togara sem Olsen var skipverji á. Olsen gat engar skýringar gefið á því, að því er fram kemur í umfjöllun Vísis. Á skírteininu fannst hins vegar fingrafar sem reyndist vera af Olsen.

Segist hafa lagt sig við Reebok Fitnes

Vísir greinir einnig frá þeim skýringum sem Olsen hefur gefið á ferðum sínum að morgni 14. janúar, eftir að hann ekur frá Hafnarfjarðarhöfn um klukkan sjö. Olsen segist hafa ekið að Reebok Fitness líkamsstöðinni í Hafnarfirði og lagt sig í nokkra stund. Lögregla segist hins vegar hafa skoðað eftirlitsmyndavélar sem vísa út á bílastæðið. Rauða Kia Rio bifreiðin sjáist ekki á mynd. Lögreglan telur að Olsen hafi ekið frá Hafnarfjarðarhöfn í Ölfus og varpað Birnu í sjó eða vatn nærri Selvogsvita.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV