Þegar allt var svart og hvítt

29.06.2017 - 16:43
Sigurbjörg Þrastardóttir reimar á sig útiskóna í síðasta sinn fyrir sumarið og veltir nú fyrir sér kynslóðabilinu og hvernig - og hvort - það sé brúað.

 

Sigurbjörg Þrastardóttir skrifar:

Sjö ára barn horfði á mig og spurði blákalt – ég man ekki hvert umræðuefnið var, mig minnir helst að þetta hafi sprottið alveg upp úr þurru – sumsé, barnið spurði, og eiginlega án þess að búast við svari:

–Var ekki ömurlegt að vera lítill í gamla daga?

–Ha?

–Já, þegar það var ekkert sjónvarp, og bara pínulítil hús – var ekki ömurlegt að vera lítill þegar allt var svart og hvítt?

Þegar ég spurði barnið hvers vegna það héldi að allt hefði verið svart og hvítt dæsti það og svaraði:

–Það var allt svart og hvítt. Ég hef séð myndirnar.

Nú er rétt að ég skjóti inn þeirri staðreynd, góðir hlustendur – því þið sjáið ekki aldur minn í gegnum útvarpið – að litmyndir voru m.a.s. komnar til sögunnar á tímum ömmu minnar og afa. En svona hélt barnið áfram að jesúa sig yfir því hvernig hafi verið hægt að vera lítill þegar ekkert var almennilegt.

Þetta eru vísast eðlilegar ályktanir þegar maður er sjö ára, en þegar grannt er skoðað grunar mig að við séum öll dálitlir, hvað á maður að segja, fangar eigin afmælisdags. Að sjálfsögðu vex hæfni okkar til þess að setja sig í annarra spor, til þess að skilja aðbúnað á öðrum tímum, en maður lifir samt bara, empírískt, á einu, afmörkuðu tímabili. Vegna þess að raunverulegt tímaflakk er ekki til, er ekki hægt að vera uppi á öðrum tímum. Og hvers vegna er ég að benda á þessar þekktu staðreyndir? Það er vegna þess að hugtakið kynslóðabil er um það bil það heitasta þessa dagana í umræðum og skoðanaskiptum af ýmsum toga. Og þá er óhjákvæmilegt að hugsa: Hvar er línan dregin í þessu abstrakt hugtaki, í hversu mörg lög er hægt að skipta t.d. einni öld, og hvað þýðir hugtak eins og mannsaldur, nú þegar lífslíkur eru allt aðrar en þegar orðið mannsaldur var búið til?

Ég tek annað dæmi um erfiðleikana við að setja sig í annarra aldursspor: Ítalska ljóðskáldið Giacomo Sandron, sem hefur áður komið við sögu hér á útiskónum – í tengslum við Valentínusar-paródíu-ljóð sín – skrifaði eftirfarandi á vegg sinn, og það skal tekið fram að Sandron er 37 ára: „Í dag hitti ég strák sem er ’98 módel (fæddur árið nítjánhundruðníutíuogátta) og, hvað skal segja, hann var með líkama sem hann virtist hafa ágæta stjórn á, tvo fótleggi, tvo handleggi, hann borðaði, talaði, virtist hafa sjálfstæða hugsun sem hann ljáði rödd, og hann tjáði sig í gegnum málfræðikerfi sem ég skildi … alveg ótrúlegt dót … “ Hér lýkur tilvitnuninni, og þetta síðasta er þýðing mín á ítölsku slangri, sem er líklega nauðsynlegt að taka fram í ljósi nýframkominna ásakana um að málfar yngri en fimmtugra sé mestmegnis „samsuða ensku og innantóms orðagjálfurs.“ En ég segi sumsé fyrir mig: Það er auðvelt að skilja undrunartón Giacomo Sandron þegar maður vaknar upp við það að forsetafrúin er yngri en maður sjálfur og að prestarnir sem nú gifta börnin sem maður passaði voru ekki fæddir þegar maður fermdist!

Og þá spyr ég aftur, hvað gerir kynslóð að kynslóð, og hvar liggja skilin? Sum hugtök virðast gefa vísbendingar um þetta en gera svo lítið gagn þegar til kemur. Fólk í stúdentaíbúðum getur til dæmis verið nítján eða þrítugt, fólk í ungliðahreyfingum líka, og orðið „ungskáld“ er ekki síður skrýtið, það hefur verið notað um tvítugt fólk og þrjátíu og sex ára, eftir atvikum. Þar á milli er alveg heil grunnskólaganga, þannig að kynslóðirnar eru strax orðnar tvær, ef svarið er á þá leið að ein skólaskyldulengd búi til bilið milli kynslóða. Og það er hugsanlega rétt svar, svo vísað sé í annan nýlegan umræðustorm – að þessu sinni á félagsmiðlum – sem snerist um málaval. Tekið var viðtal við norskan mann á ensku í íslensku sjónvarpi og upphófst þá talsverður skotgrafahernaður, í stuttu máli milli þeirra sem héldu því fram að færni í Norðurlandamálum væri lykill að fjölbreyttum samskiptum, og hinna sem bentu á að enskan væri hin nýja danska yngri Íslendinga, svo vitnað sé í einn sirka þrítugan. Þetta er nota bene einföldun á umræðunni (þarna sletti ég samt latínu, til þess að vera með) – en það sem mér þótti áhugaverðast var hve margir í þessum umræðum notuðu orðið „kynslóð“ til þess að lýsa afstöðumuninum. Og hversu margir andmæltu því að vera af þeirri kynslóð sem á þá var borið (’68 kynslóðinni, heimsendakynslóðinni, ungu kynslóðinni og svo framvegis) eða tilheyra þeim hugmyndaheimi sem „kynslóðin“ 0er talin standa fyrir. Námskrá kom í öllu falli við sögu sem sterkt mótunarafl ólíkra kynslóða, og það er vissulega hluti af svarinu.

Viðhorf okkar til genginna kynslóða er annars margvíslegt, og ekki allt þar í eina átt. Fortíðin er ýmist svipa eða sætur draumur. „Viljiði fara aftur í torfkofana?“ er ógnandi spurt þegar menn hika við að stökkva á meinta framfaravagna. Margir óska þess á hinn bóginn að hafa verið uppi á liðnum tímum, eins og handritshöfundurinn Gil Pender í kvikmyndinni Midnight in Paris; hann villtist inn í hinn elskaða 3. áratug í París en hitti þar konu sem vildi helst flytja fjörtíu ár aftur í tímann, yfir í Gullna skeiðið, La Belle Epoque … þar sem málsmetandi menn vildu að sínu leyti helst bakka aftur í Endurreisnartímann.

„Þetta er kerfisvandi,“ sagði ein þeirra sem þátt tók í umræðunum um sjónvarpsviðtalið góða, hún var meðal þeirra sem sneiddi hjá því að nota orðið kynslóð og vildi meina að það væri auðvitað ekki við einstaklinga að sakast í þeim málum sem voru til umræðu, til dæmis því hvernig búið er að tungumálakennslu í skólum, heldur við kerfið. Kerfið sem hver hefur átt mestan þátt í að móta – jú, kannski einmitt sá aldursflokkur sem oftast gagnrýnir afurðirnar. (Þetta mættu t.d. þeir taka til sín sem draga úr stuðningi við bókmenningu en fjargviðrast svo yfir dvínandi málskilningi, þótt þeir hafi verið fjarri á téðum þráðum en þeim mun líflegri á öðrum.)

En svo er heimurinn auðvitað fullur af fólki sem ekki verður flokkað út frá fæðingarári. Ég á ýmsa jafnaldra sem þekkja dægurtónlist fimmta áratugar síðustu aldar hundrað sinnum betur en dægurtónlist samtímans. Amma, fædd 1922, heldur uppi virkum samræðum um íþróttastjörnur 21. aldarinnar – og það er ekki langt síðan ég heyrði í útskriftarveislu 96 ára gamlan mann fjalla í ræðu af meira hispursleysi og næmni um samkynhneigð en allflestir menntaskælingar sem ég þekki … Og nú er ég meðvitað að alhæfa á alla kanta, til þess að koma því til skila hvað það er erfitt að draga línurnar.

Kynslóð er svo margslungið hugtak að stundum er það eiginlega gagnslaust. Þótt menning manns eigin samtíma hafi kannski mest áhrif á það hvernig maður hugsar og tjáir sig, er hegðunin auðvitað sambland fleiri tíma. Það er margt annað en aldurinn sem skipar okkur í mengi og sniðmengi – og auk þess hafa flestir eitthvað til síns máls þegar kemur að inntaki hinna aðskiljanlegustu skoðanaskipta, hvort sem menn eru „blautir bakvið eyrun” eða „börn síns tíma”. Lausnin er kannski sú að grípa ekki endilega til þess ráðs, þegar reynsluheimur skilur okkur að, að kenna kynslóðabilinu um og láta þar við sitja, heldur leggja eitthvað dálítið af mörkum til þess að brúa eða eyða því meinta og misbreiða bili.

Og þá trítla útiskórnir út í sumarið 2017 – góðar stundir.

 

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi