Þættir um rasisma styggja áskrifendur Netflix

08.05.2017 - 16:10
Þættirnir Dear White People hafa vakið mikla athygli síðustu daga. Þættirnir byggja á samnefndri kvikmynd frá árinu 2014 og fjalla um kynþáttahatur í bandarískum háskóla. Netflix hafa borist uppsagnir frá reiðum áskrifendum sem segja þættina ýta undir aðskilnað og mismuna hvítu fólki af evrópskum uppruna.

Höfundur byggir á eigin reynslu

Efni þáttanna tekur á málefnum kynþáttahyggju og kynþáttahaturs og þá sérstaklega eins og það birtist í hinum frægu Ivy League háskólum í norðvestur hluta Bandaríkjanna, sem eru virtustu menntastofnanirnar þar í landi. Þættirnir eru leiknir, flokkaðir sem gaman-drama, og er sagan sögð frá sjónarhóli svartra minnihlutahópa í háskólasamfélaginu, og er hvergi dregið undan.

Höfundur þáttanna er hinn 33 ára gamli Justin Simien. Hann er fæddur í Texas og nam kvikmyndagerð við Chapman háskóla í Kaliforníu á árinum 2003-2007, en á námsárunum fæddist hugmyndin að myndinni og síðar þáttunum, og byggir hann efnið á eigin reynslu.

Þættir á eftir verðlaunakvikmynd

Árið 2012 framleiddi Justin kynningarstiklu fyrir bíómynd, sem síðan fór í hópfjármögnun á netinu. Gekk verkefnið vonum framar og fór upphæðin að lokum langt fram úr upphaflegu fjáröflunarmarkmiði. Úr varð kvikmyndin Dear White People sem var frumsýnd árið 2014 og hlaut frábærar viðtökur gagnrýnenda auk verðlauna og tilnefninga á kvikmyndahátíðum víða um heim. Sjónvarpsþættirnir Dear White People byggja þannig á kvikmyndinni, auk þess að bera sama nafn. Hinsvegar hefur öllum leikurum úr kvikmyndinni verið skipt út og nýir fengnir í staðinn, en þar er fremst í flokki leikkonan Logan Browning.

Hörð viðbrögð vegna stiklu

Mikil reiði hefur gripið um meðal ákveðinna hópa í Bandaríkjunum, sem saka þættina um að kynda undir kynþáttahatur á hvítu fólki. Þessu vísa framleiðendur á bug og segja þættina einmitt berjast gegn slíkum fordómum og aðskilnaði, og gefi sagan það sterklega til kynna. Netflix bárust uppsagnir frá reiðum áskrifendum í kjölfar sýningar á kynningarstiklu um frumsýningardag þáttanna þann 8. febrúar síðastliðinn, en þættirnir voru sem fyrr sagði frumsýndir í apríllok. Þegar þetta er skrifað hafði stiklan fengið tæplega fimm milljón áhorf, og þar hafði um hálf milljón áhorfenda gefið stiklunni neikvætt atkvæði (e. dislike) á móti tæplega 60 þúsund jákvæðum atkvæðum (e. likes).