„Það er kynjajafnrétti í íslenskum fótbolta“

11.07.2017 - 10:44
Mynd með færslu
Skotar urðu á eftir Íslandi í riðlinum í undankeppni EM.  Mynd:  -  UEFA
Gemma Fay, markvörður kvennaliðs Stjörnunnar í fótbolta og fyrirliði skoska kvennalandsliðsins, segir að kynjajafnrétti einkenni íslenskan fótbolta. Hún segir að aðrar þjóðir geti lært margt af Íslendingum.

Eftir að Gemma sem er 35 ára meiddist í upphafi árs missti hún byrjunarliðssætið hjá Glasgow City og óttaðist hún þá að missa af Evrópumótinu í Hollandi þar sem Skotar taka í fyrsta sinn þátt í stórmóti.

Hún samdi í kjölfarið við Íslandsmeistara Stjörnunnar og í ítarlegu viðtali við breska blaðið Guardian segir hún að það hafi verið áhætta sem svo sannarlega borgaði sig en hún hafði ekki hugmynd um hvað hún var að fara út í á Íslandi.

„Ég hef snúið til baka eftir meiðslin sterkari og í betra formi en ég hef nokkurn tímann verið í. Þetta hefur verið frábært fyrir mig því Pepsí-deildin er líkamlega erfið deild og keppnisharkan er mikin. Ég dýrka það.“ segir Gemma og bætir við að aðrar þjóðir geti lært mikið af Íslendingum.

„Íslendingar gera þetta mjög vel. Það er samfélagsandi yfir öllu. Fótboltinn er allsstaðar iðkaður, allir krakkar eru að spila og jafnrétti er milli kynjanna. Það má læra margt af því hvernig þau gera hlutina þarna.“

Skotar eru í D-riðli á EM ásamt Englandi, Spáni og Portúgal.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður