Telja Ísafjarðardjúp þola 30.000 tonna eldi

15.03.2017 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Hafrannsóknastofnun telur að Ísafjarðardjúp þoli 30 þúsund tonna sjókvíaeldi. Burðarþolsmat er forsenda þess að gefa má út rekstrarleyfi fyrir eldi í sjó en þrjú fyrirtæki áforma aukið laxeldi í Djúpinu. 

Forsenda rekstrarleyfis 

Árið 2014 voru sett inn ákvæði í fiskeldislög um að ein forsenda rekstrarleyfis sé burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar, mat á þoli fjarða til að taka á móti auknu lífrænu álagi fiskeldis án þess að það hafi óásæskileg áhrif á lífríkið. Við matið er litið til álags á lífríki botnsins, súrefnisstyrks og styrks næringarefna í sjó en þó ekki til annarra umhverfisáhrifa - eins og áhrifa slysasleppinga á aðra fiskistofna. 

Verður áfram vaktað

Á greinagerð Hafrannsóknastofnunar segir að stofnunin telji að hægt sé að leyfa allt að 30 þúsund tonna lífmassa í eldi í Ísafjarðardjúpi. Þá er gert ráð fyrir því að eldið verði vaktað, sem gæti orðið forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins. Þrjú fiskeldisfyrirtæki eru með leyfisumsóknir í vinnslu fyrir stórauknu eldi á laxi í Ísafjarðardjúpi, eða leyfi fyrir allt að 25 þúsund tonnum.

Burðarþolsmati við landið ekki lokið

Hafrannsóknastofnun hefur áður metið burðarþol Arnarfjarðar sem 20 þúsund tonn en til dæmis á enn á eftir að meta burðarþol fjarða fyrir austan. Framkvæmdastjóri Landssambands Fiskeldisstöðva telur að heildarburðarþol fjarða við Ísland gæti verið um 100 þúsund tonn en til samaburðar þá var heildarframleiðsla á laxi í sjó á síðasta ári 6 prósent af því.