Tekist á við arfleifð þrælaverslunarinnar

Bókmenntahátíð í Reykjavík 2017
 · 
Bókmenntir
 · 
Kiljan
 · 
Yaa Gyasi
 · 
Menningarefni

Tekist á við arfleifð þrælaverslunarinnar

Bókmenntahátíð í Reykjavík 2017
 · 
Bókmenntir
 · 
Kiljan
 · 
Yaa Gyasi
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
10.09.2017 - 14:46.Davíð Kjartan Gestsson.Kiljan
Yaa Gyasi er ungur rithöfundur sem á framtíðina fyrir sér. Frumraun hennar, skáldsagan Heimför, vakti mikla athygli og umtal þegar hún kom út í fyrra. Þetta er örlagasaga sem rekur áhrif þrælahalds í gegnum sjö ættliði, frá 18. öld og fram á okkar daga.

Yaa Gyasi var á meðal þeirra erlendu rithöfunda sem komu fram á Bókmenntahátíð í Reykjavík, en henni lauk í gær. Í Heimför, hennar fyrstu útgefnu skáldsögu, er sagt frá hálfsystrum í Ghana sem upplifa ólík örlög. Önnur giftist breskum þrælasala, en hin er hneppt í þrældóm og seld til Ameríku.Þetta er metnaðarfull frásögn um yfirþyrmandi grimmd og flókna arfleifð þrælaviðskipta, sögð frá 14 ólíkum sjónarhornum. Það er því óhætt að segja að Heimför sé viðamikil skáldsaga, bæði í tíma og rúmi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Ég vildi ná utan um langt tímabil svo að maður fengi tilfinningu fyrir arfleifð þrælaverslunarinnar,“ segir Yaa Gyasi. „Ég fæddist í Ghana og átti heima þar til tveggja ára aldurs. Þá flutti fólkið mitt til Bandaríkjanna. Ég sneri svo aftur ellefu ára með allri fjölskyldunni. Og fór svo aftur á eigin vegum til að afla heimilda fyrir Heimför þegar ég var tvítug. Í þeirri ferð dvaldi ég þar um sumarið og skoðaði Cape Coast kastalann. Svo að bókin sækir mikið til þess ferðalags.“

Þó liðin séu meira en 150 ár frá því þrælastríðinu í Bandaríkjunum lauk segir Gyasi enn margt óuppgert í bandarísku þjóðfélagi.

„Svo margt sem við höfum fyrir augum í Bandaríkjunum í dag á sér rætur í atburðum sem gerðust endur fyrir löngu, eins og Heimför reynir að sýna fram á,“ segir hún. „Við leystum ekki úr margvíslegum vanda sem stóð eftir þegar þrælastríðinu lauk, eftir endurskipulagningu Suðurríkjanna, eftir Jim Crow-lögin um aðskilnað. Svo að þarna sameinast mörg mál sem hófust fyrir nokkrum öldum. Ég læt mig það varða og við horfum á það endurtaka sig í sífellu og við höfum það áfram fyrir augum okkar.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Yaa Gyasi var á meðal gesta á Bókmenntahátíð í Reykjavík. Egill Helgason ræddi við hana í sérstakri hátíðarútgáfu Kiljunnar. Þáttinn í heild má finna í Sarpinum.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Feikilega eldfimt að skrifa um sænsku þjóðina

Bókmenntir

5 bækur sem þú ættir að lesa í júní