Talsverður sinubruni á Snæfellsnesi

11.05.2017 - 16:53
Talsverður sinubruni er nú í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi, rétt við Vegamót. Ekki er vitað hvernig hann kviknaði, en slökkvilið er á vettvangi. Ekki hafa fengist upplýsingar frá slökkviliðinu, en slökkviliðsstjórinn Bjarni Þorsteinsson sagðist ekki hafa tíma til að ræða við fréttastofu þegar hringt var í hann um hálffimm.

Fréttin var uppfærð klukkan 18:27

Þorsteinn Sigurðsson, íbúi á Holti við Vegamót, segir í samtali við fréttastofu að eldurinn sé töluverður en landfræðilega séð sé hann ekki á svo slæmu svæði sem afmarkist af vegum og skurðum.

Slökkviliðsmenn úr að minnsta kosti þremur slökkviliðum hafa  barist við sinueldinn.

Áslaug frá Lágafelli sem fréttastofan ræddi við  telur að búið sé að ná tökum á eldinum og ekki sé lengur hætta á að hann berist í mannvirki.  Fjöldi fólks úr sveitinni hefur lagt slökkviliðismönnum lið, og bændur með haugsugur að vopni, hafa unnið gegn eldinum með því að dreifa vatni og bleyta jörðina.

Áslaug, sem sjálf hefur barist við eldinn í dag,  treysti sér ekki til að segja til um hversu mikið land hefur þegar brunnið en þetta sé talsvert svæði.  Ekki er vitað hvernig eldurinn kviknaði. 
 

Mynd með færslu
 Mynd: Þorsteinn Sigurðsson  -  RÚV
Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV