Tafir á opnun mathallar á Hlemmi

Innlent
 · 
Menningarefni
 · 
Neytendamál
Hlemmur.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

Tafir á opnun mathallar á Hlemmi

Innlent
 · 
Menningarefni
 · 
Neytendamál
09.05.2017 - 06:12.Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
„Það kemur í ljós á næstu dögum eða vikum nákvæmlega hvenær verður opnað,“ segir Bjarki Vigfússon, einn forsvarsmanna Hlemms - mathallar. Ætlunin var að opna mathöllina í júní en það gæti tafist fram í júlí. „Framkvæmdir hafa tafist úr hófi fram, enda mörg flókin úrlausnarefni. Það er verið að breyta allri funksjón hússins en ytra byrðið heldur sér.“

Bjarki segir of snemmt að tala um dagsetningar á opnun mathallarinnar. „Nú er lokaspretturinn framundan en það er ekki alveg ljóst hvenær við opnum.“

Búið er að ganga frá samningum við níu rekstraraaðila í húsið. Þá segir Bjarki að markmiðið sé að geta verið með tímabundna markaði fyrir utan húsið á sumrin og um jólin. „Ég vona að það verði planið hjá borginni að halda áfram þróun á svæðinu og efast ekki um það. Mathöllin verði fyrsta skrefið.“

Auglýst var eftir umsóknum um stöðu framkvæmdastjóra nýverið. Bjarki segir ráðninguna á lokastigi.

Fleiri hafa haft hug á því að opna matarmarkað í Reykjavík. Forsvarsmenn Reita hafa lýst vilja til að opna einn slíkan í Holtagörðum. Guðjón Auðuns­son, forstjóri Reita, segir aðspurður að lítið sé að frétta af þessum hugmyndum. „Við höfum ekki unnið mikið í þessu undanfarna mánuði en við höfum fullan hug á að fara af stað með þetta. Við erum búin að kynna hugmyndina fyrir núverandi rekstraraðilum í húsinu en hún gæti breyst í meðförum.“