Systurnar, sorgin og sáttin

Gagnrýni
 · 
Kristjana Stefáns
 · 
Ófelía
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Systurnar, sorgin og sáttin

Gagnrýni
 · 
Kristjana Stefáns
 · 
Ófelía
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
13.01.2017 - 12:11.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Það er tónlistar- og söngkonan Kristjana Stefáns sem á heiðurinn af plötunni Ófelía og notast hún við listamannsnafnið Bambaló. Einvalalið hljóðfæraleikara og aðstoðarmanna kemur við sögu á persónulegu og nokk sorgbundnu verki. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í plötuna sem er plata vikunnar á Rás 2.

Ófelía er m.a. sprottin upp úr leikhúsvinnu Kristjönu. T.a.m. á Bergur Þór Ingólfsson alla íslenska texta á plötunni (Kristjana á þá ensku) en þau hafa unnið saman að nokkrum verkum, m.a. Hamlet litla og Sókrates en fyrrnefnda verkið skaffaði Kristjönu þá persónu sem gefur plötunni titilinn. Í viðtali við Morgunblaðið segir Kristjana að listamannsnafnið Bambaló hafi hún nýtt sér bæði til að aðgreina sig frá djasssöngkonunni Kristjönu, auk þess sem það hafi gefið henni þann styrk sem þurfti til að stíga fram sem höfundur að verki sem sker sig nokkuð frá því sem hún hefur verið að fást við venjulega. Ófelía inniheldur tíu frumsamin lög auk lagsins „So Wrong“ eftir Jackie Allen og Bill Anschell. Kristjana fær ýmsa valinkunna tónlistarmenn til liðs við sig, Daði Birgisson er þar helstur en hann sá um upptökuþáttinn ásamt því að leika á bassa og sjá um ýmis áhrifshljóð. Daníel Helgason spilar á gítar, Kristinn Snær Agnarsson og Bassi Ólafsson sjá um ásláttarhljóðfæri, Pétur Sigurðsson leikur á kontrabassa í einu lagi og þá leggja Svavar Knútur og Arnar Guðjónsson til raddir.

Sorg

Ófelía er einkar melankólískt verk og angurvært og það er mikil sorg undir, sérstaklega á fyrri helmingnum þar sem hvert og eitt lag líður áfram sem í mókkenndum draumi. Platan er afar persónuleg að þessu leytinu til, þó að það komi ekki beint fram hvað sé undir. Kristjana talaði um í áðurnefndu viðtali við Morgunblaðið að hún tengdi sterkt við vanrækslu það og rof sem Ófelía glímir við og bendir þar aukinheldur á að allir þurfi á einhverjum tímapunkti að gera upp líf sitt og æsku. „Mér fannst mikilvægt að nota tónlistina til að umbreyta sorg í gleði og skapa fegurð úr ljótleika,“ segir hún m.a..  

Platan heldur manni í þessum greipum nærfellt allan tímann, er eiginlega miskunnarlaus að því leytinu til, en undir endann fer að birta til (minnir mig dálítið á hvernig Björk setti Vulnicura upp). Að því leytinu til ber næstsíðasta lagið, „For all time“ af, þar sem rödd Arnars Guðjónssonar kemur gríðarsterk inn. Kristjana stígur ákveðið út fyrir þægindarammann með þessu verki og er það hrósvert en úrvinnsla er þó á köflum upp og ofan. Þyngslin í fyrri hlutanum verða t.d. nánast óbærileg á stundum, þó að umfjöllunarefnið kalli óhjákvæmilega á þá áferð og enga aðra. Í sumum lögum er þá eins og það sé hálfgerð óvissa um hvernig best væri að beita röddinni, eins og Kristjana sé enn að þreifa fyrir sér í þessu nýja hlutverki. Lög eins og „Hvar varstu?“, „Dauði Ófelíu“ og „Snjókornið“ detta einhvern veginn á milli þilja, það er ákveðin tilraunamennska í gangi saman með framúrskarandi söng Kristjönu en um leið er eins og það stefnumót sé full blint ef svo mætti segja.

Heiður

Kristjana á heiður skilinn fyrir að stíga fram af hugrekki með eigið verk, útkoman er ekki fullkomin eins og ég hef rakið, en ég hvet hana eindregið til að skoða sig frekar um á þessum nýja stað.

Bambaló - Ófelía

Tengdar fréttir

Tónlist

Bambaló - Ófelía

Tónlist

Einlægt og heiðarlegt verk

Tónlist

Himneskir tónar og hátíðarbragur

Tónlist

Gefðu mér djass í skóinn