Svartsýnisspáin ekki svo ýkja slæm

13.09.2017 - 10:54
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Ferðaþjónustan hefur fest sig í sessi sem ein helsta atvinnugrein Íslendinga, jafnvel þótt hófleg fækkun verði á ferðamönnum. Líklegast er þó að ferðamönnum haldi áfram að fjölga þótt hægja muni á vextinum. Gert er ráð fyrir 2,5 milljónum ferðamanna á næsta ári.

Þetta kom fram á kynningarfundi greiningardeildar Arion banka árlegri úttekt hennar á ferðaþjónustunni.

Fjölgunin helst í hendur við fjölgun flugferða  til landsins og stýrir sá þáttur mestu hvað varðar fjöldatölur. Sterk króna hefur haft minni áhrif en talið var á fjölda ferðamanna. Ferðamönnum hefur fjölgað áfram þrátt fyrir styrkingu krónunnar en gengið hefur haft áhrif á neyslu- og ferðamynstur.

„Áhrifin á fjöldatölur týnast algjörlega þegar flugframboð er að aukast svona mikið. Þannig að við erum mjög háð því hvernig famboðið muni þróast og flugframboðið muni fylgja rekstri flugfélaga hér og annars staðar, þannig að það er miklu stærri áhrifaþáttur en gengi krónunnar,“ segir Konráð S. Guðjónsson, sérfræðingur í greiningardeild. Reynt var að spá fyrir um hvernig flugframboð gæti þróast miðað við áætlanir flugfélaga um flugflota og farþega. Erfitt sé þó að spá langt fram í tímann um það.

Úr glærum Arion
 Mynd: Arion banki
Úr úttekt Arion banka

„Það á samt eftir að koma í ljós hvaða áhrif það hefur að Ísland er allra dýrasti ferðamannastaður í heiminum. Við eigum eftir að sjá það endanlega hver áhrifin eru af því,“ segir Konráð.

Settar voru upp tvær sviðsmyndir, svartsýn og bjartsýn, út frá ákveðnum forsendum. Sú svartsýna sýnir samdrátt ferðamanna á næstu árum. „Engu að síður er það þannig að miðað við hana verða fleiri ferðamenn hér árið 2020, en árið 2015, 1,6 milljónir, sem er kannski ekki svo ýkja slæmt,“ segir hann.

Bjartsýnisspáin segir að árið 2020 verði ferðamenn 3,5 milljónir. „Þá fer verulega að reyna á þanþol hagkerfisins og innviða,“ segir Konráð. Forsendurnar fyrir bjartsýnustu sviðsmyndinni séu þær að flugframboð haldi áfram að aukast og flugáætlanir rætist.

Líklegast sé að fjölgunin verði hófleg og minni en undanfarin ár. Rekstrarumhverfi sé að verða erfiðara, krónan sé að hafa þau áhrif að ferðamenn komi hingað í styttri tíma og eyði minna. Þá hafi launakostnaður aukist. Því sé líklegt að fyrirtæki vinni í auknum mæli saman.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir