Sumir á batavegi en enn er fólk að veikjast

11.08.2017 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV
Alls hafa 63 ungmenni veikst, en ekkert þeirra alvarlega, af sýkingunni sem kom upp í skátabúðum á Úlfljótsvatni í gær. 181 barn og ungmenni hefur verið flutt í fjöldahjálparstöð í Hveragerði.Skátarnir báru sig vel þegar fréttamaður leit við hjá þeim fyrir hádegi. Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, segir að þeim líði vel eftir aðstæðum. Þeim þyki þó verst að komast ekki út úr húsi en að svo stöddu er talið best að þau séu innandyra.

Aðgerðastjórn kom saman til fundar fyrir hádegi. Hjörtur Kristjánsson, umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi, segir að nú fylgist menn með því hvernig mál þróast. „Það er enginn sem hefur veikst alvarlega. Sumir eru á batavegi. Það eru að koma fáeinir nýir veikir.“ Hann segir að ef þetta er nóróveirusýking, eins og talið er, þá gangi þetta fljótt yfir.

„Þetta hefur gengið mjög hratt fyrir sig. Mann grunar þá annaðhvort matareitrun eða þá sýkingu með veiru eins og nóróveiru. Þá er meðgöngutími stuttur,“ segir Styrmir. Hann segir óljóst hversu lengi ungmennin verða í fjöldahjálparstöðinni. Fyrstu niðurstöður úr sýnatökum eru væntanlegar síðar í dag og geta varpað ljósi á málið.

Búið er að girða af hluta af aðstöðunni við Úlfljótsvatn. „Alvarleikinn felst fyrst og fremst í fjöldanum. Við höfum ekki þurft að leggja neinn inn á sjúkrahús.“