Sumarhúsaeigendur bjarga Vagninum á Flateyri

03.08.2017 - 21:55
Sumarhúsaeigendur á Flateyri hafa keypt einu krána í þorpinu, Vagninn, og vinna nú að endurbótum en þakið var til dæmis að hruni komið. Ein nýrra eigenda segir að þetta sé samfélagsverkefni enda eigi Vagninn sinn stað í hjarta margra.

Lágt húsnæðisverð

Með fólksfækkun og minni eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði lækkar húsnæðisverð og þá getur verið freistandi fyrir fólk úr öðrum landshlutum að kaupa sér hús á góðu verði og búa sér annað heimili. Á síðasta ári voru 67 íbúðir hér á Flateyri í eigu fólks með lögheimili í öðru sveitarfélagi. En húsin standa ekki bara auð. Margir hafa látið til sín taka til að laga þau og bæta.

Keyptu einu krá þorpsins

Til viðbótar við eigin hús hafa þrjár sumarhúsafjölskyldur keypt Vagninn, einu krána í bænum, og vinna nú að endurbótum. „Við byrjuðum á því að taka þakið, því það var að hruni komið að hluta til og svo ætlum við bara að byggja upp út frá því,“ segir Ragnheiður Ólafsdóttir, ein eigenda Vagnsins. „Síðan langar okkur að fara í miklar framkvæmdir að innan þótt við viljum að sjálfsögðu halda í sál staðarins þá langar okkur að fá meiri möguleika út úr húsinu,“ segir Sara Ólafsdóttir, sem er einnig eigandi Vagnsins.

Mikilvægur samkomustaður

Vagninn hefur þjónað fjölþættu hlutverki fyrir íbúa í gegnum tíðina og verið mikilvægur samkomustaður. Nýir eigendur hafa það í heiðri og standa fyrir hvers kyns uppákomum. Sara segir að þetta sé samfélagsverkefni. „Þetta er staður sem að skiptir fólk miklu máli og er í hjarta mjög margra.“

Ekki bara aðsetur að sumri

Þótt Vagninn loki að hausti hverfur hópurinn ekki á braut eins og farfuglarnir. „Við erum bæði sjálfstætt starfandi og þar af leiðandi getum við lengt sumarfríið um það sem hentar okkur,“ segir Ragnheiður sem á hús á Flateyri ásamt manni sínum Geir Magnússyni.

Eru þetta þá ekkert lengur sumarhús? Og kannski alls ekki?

„Nei, nei, bara alls ekki. Við höfum alveg oft velt fyrir okkur að taka að okkur þannig verkefni sem bjóða uppá að við séum hérna allt árið inn á milli,“ segir Sara en hún hefur lengi átt hús á Flateyri ásamt manni sínum Hálfdáni Petersen.

Safna fyrir viðgerðunum

Eigendur Vagnsins standa fyrir söfnun á Karolina fund til fjármagna viðgerðina á þakinu. Sara segir það hafa verið hugmynd frá brottfluttum Flateyringum að fá samfélagið til að hjálpast að við að fjármagna framkvæmdirnar.