Súkkulaðiiðnaðurinn notar ólöglegar kakóbaunir

13.09.2017 - 17:29
Mynd með færslu
 Mynd: -  -  wikimedia
Stór hluti kakós sem notaður er í súkkulaðiframleiðslu í heiminum er ræktaður á ólöglegan hátt í þjóðgörðum og á verndarsvæðum í Gana og á Fílabeinsströndinni.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem alþjóðlegu umhverfisverndarsamtökin Mighty Earth sendu frá sér í dag.

Gana og Fílabeinsströndin eru stærstu kakóframleiðendur heims. Í skýrslunni kemur fram að 90% lands í þjóðgörðum og öðrum verndarsvæðum þessara landa hafi verið breytt í kakóræktarlendur. 

Fjórðungur lands á Fílabeinsströndinni var áður þakinn regnskógi. Nú eru það einungis fjögur prósent og talið er víst að verði ekkert að gert verði búið að eyða honum algerlega fyrir árið 2030.

Breska blaðið Guardian sendi nýverið blaðamann til Fílabeinsstrandarinnar til að rannsaka málið. Hann segir að embættismönnum sé mútað í stórum stíl, plantekrueigendur felli regnskógana og rækti þess í stað kakóbaunir.

Þessum svokölluðu "óhreinu" eða ólöglegu kakóbaunum er svo blandað saman við löglega ræktaðar kakóbaunir og þær seldar til stóru súkkulaðiframleiðandanna; Mars, Nestlé og annarra stórfyrirtækja. Þetta þýðir að miklar líkur eru á því að í Ferrero Rocher súkkulaðikúlum, Mars, Snickers og Milka súkkulaðistöngum séu kakóbaunir sem ræktaðar hafa verið með ólöglegum hætti. 

Guardian segir að talsmenn stóru súkkulaðiframleiðendanna þræti ekki fyrir að í vörum þeirra séu ólöglegar kakóbaunir, hins vegar sé allt gert til að útrýma þeim úr framleiðslunni.

Mesta kaldhæðnin í þessu öllu saman er svo kannski sú staðreynd að bændurnir sem framleiða ólöglegu kakóbaunirnar eru svo fátækir að þeir hefðu ekki efni á svo miklu sem einu stykki af Mars súkkulaði.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV