Suður-Ameríkuríki fordæma ummæli Trumps

13.08.2017 - 05:27
epa06141360 A view of a sign that reads 'No more dictatorship' during an opposition protest against the Government in Caracas, Venezuela, 12 August 2017. Dozens of Venezuelans marched from different municipalities of the capital to protest
 Mynd: EPA  -  EFE
Ráðamenn margra Mið- og Suður-Ameríkuríkja hafa fordæmt ummæli Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, um að hann væri að íhuga hernaðaríhlutun í Venesúela vegna upplausnarástandsins sem þar ríkir. Suðurameríska viðskiptabandalagið Mercosur sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þessi ummæli Trumps voru harðlega gagnrýnd, en samtökin ráku Venesúela úr sínum röðum um óákveðinn tíma í síðustu viku, vegna ólýðræðislegra stjórnarhátta Maduro-stjórnarinnar.

Argentína, Brasilía, Paragvæ og Úrúgvæ eru fullgildir aðilar að Mercosur en Bólivía, Chile, Perú, Kólumbía, Ekvador og Súrinam hafa þar aukaaðild. Frá Argentínu berast þau skilaboð að viðræður og sáttaferli séu eina leiðin til að efla lýðræði í Venesúela. Talsmenn Mexíkó, Kólumbíu og Perú hafa tekið í sama streng og sagt hótun Trumps um mögulega hernaðaríhlutun, þótt óbein væri, brjóta í bága við grunngildi Sameinuðu þjóðanna.

Stjórnvöld í Perú hafa einnig gagnrýnt Maduro og stjórn hans harkalega og ráku sendiherra Venesúela úr landi á föstudaginn. Brottrekstur sendiherrans var afleiðing „ófullnægjandi viðbragða" Maduro-stjórnarinnar við almennri fordæmingu nágrannaríkja Venesúela á nýkjörnu stjórnlagaþingi landsins. Pedro Pablo Kuczynski, forseti Perú, á það sameiginlegt með starfsbróður sínum í Washington að hafa ítrekað kallað Maduro einræðisherra. Það aftraði honum þó ekki frá því að fordæma ummæli Trumps um mögulega hernaðaríhlutun Bandaríkjanna í þessu nágrannaríki Perú.