Sú eina sem talar tungumál þjóðar sinnar

12.05.2017 - 22:43
Mynd með færslu
 Mynd: Public domain  -  Wikimedia/Creative Commons
89 ára gömul kona í Chile er eina manneskja sem eftir er í veröldinni sem getur talað fornt tungumál þjóðar sinnar, Yaghan í héraðinu Tierra del Fuego, sem er syðsta byggða ból jarðar.

AFP Fréttastofan fjallar um Cristinu Calderon, sem býr í þorpinu Villa Ukika. Í þorpinu búa um 100 Yaganar. Hún segir að aðra í þjóðflokknum skilji tungumálið en þeir tali það ekki eða þekki til jafns á við hana.

Yaghanaþjóðin lifði áður fyrr á því að veiða fisk í kanóum sínum en í dag hafa flestir sitt lífsviðurværi af ferðaþjónustu.

Eftir að systir Cristinu lést árið 2009 lýsti ríkisstjórn Chile því yfir að Cristina væri lifandi fjársjóður vegna starfa sinna við verndun frumbyggjamenningar sem er í hættu á að deyja út. 

Cristina ver degi sínum í að flétta körfur úr reyr og reyna að kenna barnabörnum sínum og systurdóttur eins mikið og hún getur um menningu þjóðarinnar og tungumál. Tungumálið hefur ekkert ritmál og er í hættu á að deyja út með henni. 

Yaghan ættbálkurinn hefur búið á svæðinu í um sex þúsund ár og taldi þjóðin um þrjú þúsund manns áður en Evrópubúar komu þangað fyrst fyrir 150 árum.

Evrópumenn höfðu smám saman áhrif á lífstíl Yaghana sem smátt og smátt fóru að klæðast fötum. Fram að því höfðu þeir verið fáklæddir og smurt líkama sína með selsfitu og klæðst selsfeldi þegar var kalt.

Þrátt fyrir að halda enn í þá hefð að vefa körfur úr reyr eru þeir smám saman að glata þjóðsögum sínum, þekkingu á stöðum og fornum vegslóðum yfir fjöllin.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV