Stytta vinnuvikuna í tilraunaskyni

10.03.2017 - 16:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, Ríkisskattstjóri, Útlendingastofnun og Þjóðskrá hafa verið valin til að taka þátt í tilraunaverkefni ríkisins og BSRB um styttingu vinnuvikunnar úr 40 klukkustundum í 36.

Tilraunatímabilið stendur frá fyrsta apríl næstkomandi og fram til fyrsta apríl að ári. Þrátt fyrir fækkun vinnustunda skerðast laun starfsmanna ekki á tímabilinu.

Í tilkynningu frá BSRB kemur fram að rannsakað verði hver áhrif styttingar vinnutímans hefur á gæði og hagkvæmni þjónustu vinnustaðanna auk áhrifa á líðan starfsmanna og starfsanda. Niðurstöðurnar verða bornar saman við mælingar sem gerðar verða á vinnustöðum þar sem vinnuvikan verður óbreytt. 

„Við fögnum þessum áfanga í áralangri kröfu okkar um styttingu vinnuvikunnar. Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir tilraun um styttingu vinnutíma á annað ár og niðurstöðurnar eru afar jákvæðar. Nú bætist ríkið við,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Í tilkynningu BSRB kemur fram að skýrt hafi komið fram í síðustu kjarakönnun bandalagsins að talsverður fjöldi vilji vinna minna en hann gerir í dag. Vinnan hefði neikvæð áhrif á samverustundir með fjölskyldu, fólk upplifði meiri þreytu í störfum sínum og talsvert meira álag. Þetta hafi þau áhrif að veikindadagar verði fleiri, langvarandi fjarvistir frá vinnu vegna álagstengdra veikinda hafi aukist og of margir sjái sér ekki fært að snúa aftur til vinnu. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV