Stytta Snorra í Reykholti sjötug

Þessa dagana er þess minnst að 70 ár eru liðin frá því að Norðmenn gáfu Íslendingum styttuna af Snorra Sturlusyni sem stendur í Reykholti í Borgarfirði. Að því tilefni býður Snorrastofa til afmælishátíðar laugardaginn 15. júlí. Ríkisútvarpið mun að þessu tilefni útvarpa fágætum upptökum sínum frá vígsluathöfninni fyrir 70 árum.

Mikil hátíð að loknu stríði

Telja má víst að afhendingin styttunar í júlímánuði 1947 hafi verið einhver merkasti viðburður í sögu Borgarfjarðar á seinni tímum. Þá var haldin fjölmennasta þjóðhátíð í sögu héraðsins. Hátíðarhöldin höfðu verið í  undirbúningi í áratugi en stríðið í Evrópu og hernám Noregs og Íslands settu vitanlega strik í reikninginn.

Mikið var við haft þegar loksins koma að vígslu styttunar. Þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnir Íslands og Noregs tóku þátt í hátíðarhöldunum og talið er að á milli 10 og 14 þúsund manns hafi komið í Reykholt til að taka þátt í hátíðinni sem markaði djúp spor í menningarvitund þjóðarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Snorrastofa
Mikið fjölmenni var á vígslunni 1947.

Minnst með viðhöfn

Og nú á aftur að blása til virðulegrar athafnar og eru allir velkomnir til staðarins að þessu tilefni. Meðal þeirra sem taka til máls verða Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands, Cecilie Landsverk sendiherra Noregs og Björn Bjarnason formaður stjórnar Snorrastofu. Þá mun Óskar Guðmundsson rithöfundur fjalla um styttuna í vitund tveggja þjóða. 

Einnig verður við þetta tilefni opnuð ný sögusýning í Snorrastofu í Reykholti en hún heitir Snorrahátíðin 1947 í lifandi myndum – og sjötugur hljóðheimur.

Einn merkasti listamaður Norðmanna

Styttan af Snorra Sturlusyni er eftir norska myndhöggvarann Gustav Vigeland (1869–1943) sem var nýlega látinn þegar styttan var vígð. Hún er afsteypa af annarri slíkri í Bergen í Noregi en Snorra er líka að finna í Vigeland safninu í Osló. Styttan þótti sérstakt tákn um vináttu milli þjóðanna tveggja og sameiginlegan menningararf sem þær deila, ekki síst vegna miðlunar Snorra á fornum norrænum menningararfi. 

Mikil útvarpsdagskrá rifjuð upp

En fyrir 70 árum var Ríkisútvarpið með mikla viðhöfn í Reykholti vegna vígslu styttunnar og á miðvikudag, þegar nákvæmlega 70 ár verða liðin frá afhjúpuninni, verður á dagskrá Rásar 1 samandregin upptaka sem Hreinn Valdimarsson tæknimaður útvarpsins hefur unnið af stakri fagmennsku upp úr upptökunum sem gerðar voru fyrir 70 árum á lakkplötur. 

Meðal þeirra sem þar heyrast tala eru Ólafur krónprins Noregs, síðar konungur landsins, sem flutti kveðju norsku þjóðarinnar og Sveinn Björnsson forseti Íslands og fleiri fyrirmenni.

Í meðfylgjandi innslagi heyrist Sveinn Björnsson forseti tala og einnig Jónas Jónsson frá Hriflu sem var formaður íslensku Snorranefndarinnar á þessum tíma. Helgi Hjörvar kynnti dagskrána af stakri list. Brot úr hátíðardagskránni verða síðan leikin í samantekt á Rás 1 fimmtudagskvöldið 20. júlí kl. 21:30. 

Mynd með færslu
 Mynd: Freydís Heiðarsdóttir  -  Flikr
Reykholtskirkja, teiknuð af Garðari Halldórssyni. Þar verður Reykholtshátíð undir lok mánaðar.

Tónlistarveisla í lok mánaðar

Það styttist líka í Reykholtshátíð sem haldin verður í Reykholti 28-30. júlí, en efnisskrá hátíðarinnar hefur nú verið kynnt.  Hún samanstendur meðal annars af verkum eftir Arvo Pärt, Johann Sebastian Bach og Felix Mendelssohn. Auk þess verður boðið upp á Vínarklassík, sönglög úr ýmsum áttum og fleira og fleira.

Listrænn stjórnandi hátíðarinnar, eins og undanfarin ár, er Sigurgeir Agnarsson sellóleikari. Rétt er að benda tónþyrstum hlustendum á að hægt er að nálgast nánari upplýsingar og miða inn á vefnum midi.is en Rás 1 mun einnig taka tónleika hátíðarinnar upp og útvarpa síðar. 

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Tengivagninn