Styrkir stoðirnar á sunnanverðum Vestfjörðum

10.02.2016 - 13:48
Vesturbyggð Patreksfjörður
Patreksfjörður Vesturbyggð sjávarútvegur fystihús fiskvinnsla atvinna höfnin bryggja bátar bátur skip
 Mynd: Jóhannes Jónsson
Gengið hefur verið frá samningi um að aflamark Byggðastofnunnar, sem áður var úthlutað Tálknfirðingum, muni haldist innan atvinnusvæðisins og þannig byggðafesta á vinnusóknarsvæðum þéttbýlisstaða á sunnaverðum Vestfjörðum efld. Að samkomulaginu koma Byggðastofnun, Oddi á Patreksfirði og útgerðarfyrirtækin Stegla og Garraútgerðin á Tálknafirði. Framkvæmdastjóri Odda segir samkomulagið styrkja stoðirnar á sunnanverðum Vestfjörðum.

Ruv.is sagði áður frá áætlunum og samþykki Byggðastofnunnar en nú hefur verið gengið frá samningum, það kemur fram á heimasíðu Byggðastofnunar en bb.is greindi frá samningnum í morgun. Samningurinn felur í sér samstarf um nýtingu á 400 þorskígildistonna aflamarki árlega í þrjú ár ásamt mótframlagi samstarfsaðila. Sigurður Viggóson, framkvæmdastjóri Odda á Patreksfirði segir að nú séu allir komnir að borðinu sem sóttu um að nýta aflamarkið. Útgerðaraðilar á Tálknafirði munu veiða fiskinn, honum verði landað á Tálknafirði og unninn hjá Odda. Ef eitthvað verði eftir af aflamarkinu, umfram það sem útgerðir Tálknafjarðar veiða, þá muni Oddi nýta þann hluta. Oddi gerir ráð fyrir 4.000 – 5.000 tonna vinnslu í fiskvinnslu Odda á Patreksfirði.

Sigurður segir helstu breytingarnar fyrir fyrirtækið felast í því að afli til vinnslu mun aukast og að þeir muni geta boðið samfelldari vinnu yfir árið. Þeir hafi getað boðið þeim vinnu sem hana misstu á Tálknafirði, sem höfðu ekki þegar flust á brott, sem voru hátt í tíu manns. Í frétt Byggðastofnunnar kemur fram að með samkomulaginu megi leggja grunn að aukinni byggðafestu á sunnanverðum Vestfjörðum í framhaldi af lokun fiskvinnslu Þórsbergs á Tálknafirði. Sigurður fagnar samkomulaginu og segist vona að þetta komi til með að styrkja stoðirnar á atvinnusvæðinu.