Stutt og öflug loðnuvertíð senn á enda

17.03.2017 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd: Óskar Pétur Friðriksson
Loðnuvertíðinni er nú svo gott sem lokið og örfá skip enn við veiðar. Sölumaður á frystum loðnuafurðum segir gott útlit varðandi sölu og þetta verði afar góð vertíð. Þar skipti stór og góð loðna, öflug skip og góðar aðstæður til veiða, höfuðmáli.

Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu eru nú tæp 27 þúsund tonn óveidd af 196 þúsund tonna loðnukvóta. Ljóst er að veiðin er meiri þar sem nýjustu upplýsingar um löndun eru ekki komnar til skila. Því má álykta að loðnukvótinn sé svo gott sem búinn. Einhver útgerðarfyrirtæki hafa hætt loðnuveiðum og snúið sér að kolmunna. Þau skip sem enn eru á miðunum hafa fengið afla úti af Vestfjörðum og undan Norðurlandi. 

Hefði verið betra að byrja veiðarnar aðeins fyrr

Sölumenn loðnuafurða eru nú í óða önn að koma afurðum á markað og segja útlitið gott. Teitur Gylfason stýrir sölu á frystum loðnuafurðum hjá Iceland Seafood. „Það hefði náttúrulega verið betra að byrja viku eða tveimur fyrr til að ná meira magni í manneldisvinnslu. En við getum ekki verið óánægð með niðurstöðuna eins og hún er í dag,“ segir hann. 

Gott útlit á mörkuðum fyrir frystar afurðir

„Ég er nú fyrst og fremst í frystum afurðum og ég myndi segja að útlitið þar er bara mjög gott,“ segir Teitur. „Í fyrsta lagi var markaðurinn í Japan nokkuð tómur fyrir hrygnu. Þannig að það tókst að framleiða verulegt magn af hrygnu og menn munu fá gott verð fyrir hana í ár.“ Minni áhersla hafi verið á frystingu á hæng fyrir markaði í Austur Evrópu. En þar hafi verð verið afar lágt síðustu mánuði og Teitur segir að betra sé að tæma þá markaði með von um hærra verð á næsta ári.

5.000 tonnum meira af hrognum í ár

Um 15.000 tonn af loðnuhrognum verða fryst á vertíðinni nú á móti 10.000 tonnum í fyrra. „Útlitið í hrognum er bara nokkuð bjart. Verðið í fyrra var afskaplega hátt, þannig að við getum varla búist við að fá sama verð áfram, en ég held að verðið verði mjög gott,“ segir Teitur. Sumir telja of geyst farið við hrognaverkunina og það sé verið að frysta of mikið inn á markaðina. Teitur telur það óþarfa áhyggjur. „Heimsmarkaður á loðnuhrognum, svona undir eðlilegum kringumstæðum, er 12-15.000 tonn. Þannig að ég held að þetta sé allt í lagi.“

Aukin samkeppni í mjöli og lýsi 

Verð fyrir mjöl og lýsi hefur verið mjög hátt undanfarin tvö til þrjú ár. Og þó Teitur segist ekki selja þær afurðir viti hann til þess að meiri samkeppni sé nú fyrirsjáanleg á þeim mörkuðum. „Það má búast við að verð á mjöli og lýsi verði kannski ekki eins hátt og það hefur verið undanfarið,“ segir hann.

Væn loðna, hagstætt veður og öflug skip

Þetta hefur að mörgu leiti verið afar óvenjuleg loðnuvertíð. Hún byrjaði seint vegna verkfalls sjómanna, mun meira var af loðnu en áður hafði mælst og hún hefur veiðst á óhefðbundnum slóðum. En það hefur verið mokveiði frá því vertíðin hófst og lítur út fyrir að þetta verði afar góð vertíð þrátt fyrir allt. Og Teitur segir þrennt skipta þarna mestu máli. „Í fyrsta lagi er loðnan afskaplega vel á sig komin, við höfum ekki séð svona stóra og góða loðnu í mörg ár, hún í þéttum torfum þannig að veiðar gengu vel. Það hefur ekkert brugðið útaf í veðrinu þessar vikur sem við höfum verið að veiða loðnu. Og síðast en ekki síst þá er iðnaðurinn búinn að fjárfesta í alveg gríðarlega góðum og öflugum skipum síðustu tvö, þrjú árin. Þannig að flotinn er bara allt annar og miklu betri heldur en áður var. Þannig að ég held að þetta þrennt skýri góðan árangur af þessarri stuttu vertið.“ segir hann.