Störukeppni og hótanir en ekkert stríð

10.08.2017 - 16:40
epa06133272 (FILE) - A picture released by the North Korean Central News Agency (KCNA) on 29 March 2013 shows North Korean leader Kim Jong-un (sitting) convening an urgent operation meeting at 0:30 am on 29 March 2013 at an undisclosed location, in which
 Mynd: EPA  -  YONHAP / KCNA
Þeir sem storka Bandaríkjunum munu gjalda það dýru verði, segir einn helsti ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Talið er að Norður-Kórea búi yfir allt að sextíu kjarnorkuvopnum. Breskir sérfræðingar í alþjóðasamskiptum eiga ekki von á því að stríð brjótist út en geri norður-kóreumenn alvöru úr hótunum sínum geti orðið erfitt fyrir Trump Bandaríkjaforseta að bregðast.

Harðorð yfirlýsing stjórnvalda í Norður-Kóreu á sér nokkurn fyrirvara. Leyniskýrslu um að einræðisstjórnin hefði þróað kjarnaodda sem koma mætti fyrir í langdrægum eldflaugum var lekið til bandarískra fjölmiðla. Trump sagðist ætla að svara með eldi og brennisteini og Jim Mattis varnarmálaráðherra tók undir með forsetanum og sagði að ef gerð yrði árás, þýddi það endalok einræðisstjórnarinnar og norður-kóresku þjóðarinnar. 

Sebastian Gorka, einn ráðgjafa forsetans, dró ekkert úr í morgun og sagði að þeir sem storkuðu Bandaríkjunum myndu greiða það dýru verði. Gorka var spurður hvort hótunin ein og sér dygði til. Hann sagði við breska ríkisútvarpið að ef þjóð væri ógnað þá þýddi lítið að svara með sendibréfi. Það myndu Bretar ekki gera ef þeim væri ógnað. Damian Green, innanríkisráðherra Breta, hvatti bandaríkjastjórn í dag til að leysa deiluna með diplómatískum aðferðum. Það sé allra hagur að hún fari ekki úr böndunum. 

Yfirlýsing norður-kóreskra stjórnvalda bar ekki síst með sér að stjórnvöld í Pyongjang væru kokhraust og tilbúin að bjóða Bandaríkjunum byrginn. Talið er að það sé ekki síst gert til að sýna Donald Trump að hann geti ekki ráðskast með Norður-kóreumenn. Svar stjórnvalda í Pyounjang var einnig beint að Trump sjálfum, eitthvað sem einræðisstjórnin hefur ekki gert áður að neinu ráði. 

Talið er að Norður-Kórea búi yfir allt að sextíu kjarnorkuvopnum, þar af nokkrum kjarnaoddum sem koma má fyrir í flugskeytum. Þeir gerðu fyrst tilraunir með kjarnavopn árið 2006 og hefur gert fjórar tilraunir síðan. Síðast í september en sú sprenging var tvöfalt öflugri en sú sem lagði borgina Hírósíma í rúst 1945.  

162 þúsund manns búa á Gvam en um fjórðungur landsvæðis eyjunnar er lagt undir bandarískar herstöðvar. Margir hafa velt fyrir sér afleiðingum árásar Norður-Kóreu á Gvam eða jafnvel á Bandaríkin. Á vef Guardian er rætt við sérfræðinga í alþjóðasamskiptum sem segja ólíklegt að stríð brjótist út. Það verði þó mjög erfitt fyrir Donald Trump að bregðast við ef norður-kóreumenn láta til skarar skríða eða halda áfram flugskeytatilraunum sínum. Skjóti Norður-kóreumenn flugskeyti, eins og þeir hafa gert margoft síðustu mánuði og ár og fjöldi þeirra hefur lent nærri ströndum Japans, þá hafi Trump ýmsa kosti. Hann geti svarað árásinni, reynt að eyða flugskeytunum og hætta á mannfall eða gera árás á Hwasong, þar sem flestir skotpallar norður-kóreumanna eru. Það geti hann reyndar gert bæði áður eða eftir að stjórnvöld í Pyongjang láta til skarar skríða.